Bjarni Thor í DUUShúsum í kvöld
„Á niðurleið“ heita tónleikar bassasöngvarans Bjarna Thors Kristinssonar sem haldnir verða í Duus-húsum n.k. sunnudagskvöld kl. 20.
Bjarni Thor er mörgum Suðurnesjamönnum að góðu kunnur en hann er fæddur og uppalinn í Garðinum og bjó um tíma einnig í Keflavík. Hann hefur undanfarin 13 ár starfað sem óperusöngvari og sungið í mörgum af þekktustu óperuhúsum heims eins og t.d. í Ríkisóperunni í Berlín, Bæversku óperunni í München, óperuhúsunum í Róm, Feneyjum, Verona, París, Barcelona, Chicago og þjóðaróperunni í Vín svo eitthvað sé nefnt. Bjarni er nú búsettur á Íslandi og auk starfa sinna í útlöndum hefur hann verið fastagestur í Íslensku óperunni; nú síðast í Ástardrykknum eftir Donzietti.
Söngskemmtunin „Á niðurleið“ var fyrst flutt í Salnum síðasta sumar og fékk fádæma viðtökur gagnrýnenda og áhorfenda. Að undanförnu hefur þessi dagskrá verið á ferðalagi um landið og er síðasti viðkomustaðinn í bili er í Duus-húsum n.k. sunnudagskvöld. Yfirskriftin „Á niðurleið“, vísar í uppbyggingu tónleikanna, en þar lækkar neðsta nótan í hverju lagi eftir því sem á líður. Viðfangsefnin eru fjölbreytt: sönglög, aríur, ljóð, drykkjuvísur og slagarar þar sem gamansemin er í fyrirrúmi þó alvarleikinn sé aldrei langt undan. Með Bjarna Thor leikur Ástríður Alda Sigurðardóttir á píanóið. Þetta er söngskemmtun sem hæfur vönum sem óvönum, ungum sem öldnum.