Bjarni Harðar og Jón Björn fá kútmaga í kvöld
Árlegt kútmagakvöld Lionsklúbbs Keflavíkur er í Stapa.
Lokaundirbúningur fyrir Kútmagakvöld Lionsklúbbs Keflavíkur var í fullum gangi í gær en þessi árlegi viðburður verður í Stapa í kvöld. Lionskallarnir tróðu í fimmhundruð kútamaga í húsnæði Saltvers í Njarðvík í gær.
Lionsklúbbur Keflavíkur er einn elsti félagsskapur á Suðurnesjum. Í mörg ár hafa þeir haldið kútmagakvöld en það hefur verið ein stærsta fjáröflun klúbbsins í áraraðir. Þá bjóða Lionsfélagar vinum og kunningum til þessarar stóru veislu þar sem kútmagar og annar ljúffengt sjávarfang er á borðum. Hafsteinn Guðnason er skólastjóri Kútmagaskólans og hefur á undanförnum árum útskrifað fjölda nemenda. Afraksturinn er á borðum lionsmanna í kvöld.
Auk ljúffengs matar eru einnig skemmtiatriði á boðstólum. Bókaútgefandinn og fyrrverandi þingmaðurinn Bjarni Harðarson verður ræðumaður kvöldsins en verðandi stórstjarna og míni selebinn Jón Björn Ólafssson er veislustjóri. Frægðarsól hans hefur risið hratt undanfarin tvö ár eftir frammistöðu hans sem veislustjóri á þorrablóti Keflavíkur.
Enn eru nokkrir miðar lausir á kútmagakvöldið í kvöld og er hægt að hringja í lionsmennina Jón Ólaf í síma 6981613 og Magnús Haraldsson í s. 8965508.
Fyllt hrogn sem sérstakri aðferð úr Kútmagaskólanum eru á veisluborðum kútmagakvöldsins.
Magnús Haraldsson og Jón Ólafur Jónsson tóku sig vel út í frágangi á kútmögunum.
Lionshópurinn sem var við kútmagagerðina í húsakynnum Saltvers. VF-myndir/pket.