Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Bjarni Ara menntar sig í Bítlabænum
Mánudagur 6. ágúst 2012 kl. 08:20

Bjarni Ara menntar sig í Bítlabænum


Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur undanfarin 3 ár boðið upp á námsleiðina Menntastoðir sem er undirbúningsnám fyrir Háskólabrú Keilis og frumgreinadeildir H.R. og Bifrastar. Yfir 200 manns hafa þegar lokið þessu námi og flestir þeirra hafa haldið áfram í annað nám. Nemendur koma af öllu landinu og einn af þeim sem hafa sótt sér menntun í Bítlabænum er söngvarinn Bjarni Arason. Blaðamaður hitti Bjarna og spurði hann um ástæðu þess að hann kom á Suðurnesin að mennta sig.

Mig hafði lengi langað að fara aftur í skóla og klára stúdentsprófið en ég mátti aldrei vera að því sökum anna í vinnunni. Ég ætlaði reyndar að segja upp fyrir nokkrum árum og vinda mér í þetta verkefni en vinnuveitandi minn lagði hart að mér að fresta því sem ég gerði þá. En svo kom að því að þessi sami vinnuveitandi rétti mér rauða spjaldið árið 2008 og þá fannst mér gráupplagt að setjast á skólabekk hjá MSS á Suðurnesjum. Eftir mikla hvatningu frá Silju eiginkonu minni þá fór ég að líta í kringum mig. Ég hitti vinkonu mína Guðrúnu Gunnarsdóttur söngkonu á förnum vegi og ég tjáði henni frá þessum áhuga mínum á að feta þessa braut og henni leist svo vel á þessar fyrirætlanir mínar að hún hringdi strax í góða vinkonu sína Soffíu Waag Árnadóttur, frábæra manneskju sem er forstöðumaður í Háskólabrú Keilis, sem ég svo fór að hitta næsta dag. Ég var á þessum tímapunkti að fyllast efasemd um að ég væri nú ekki bógur í þetta, fór að segja mér að það væri það langt síðan ég var í skóla að ég ætti ekki séns að ljúka þessu krefjandi námi en ég kveið mest fyrir stærðfræðinni.  Soffía var svo jákvæð og skemmtileg og í ofanálag hafði hún svo mikla trú á mér að ég fór að hafa smá trú að ég gæti kannski náð þessu. Hún benti mér á að það væri skynsamlegt að fara fyrst í undirbúningsnám hjá MSS sem hét þá Háskólastoðir eða Menntastoðir eins og það heitir núna. Ég ákvað eftir góða leiðsögn Soffíu að skrá mig í undirbúningsnámið og hóf staðnám í ágúst 2009.


En Bjarni, hvernig var að byrja aftur í námi eftir svona langt hlé?
Mér leist ekkert á þetta í fyrstu það verð ég að segja, en það átti fljótt eftir að breytast. Mér varð ljóst í upphafi að ég þyrfti að leggja hart að mér og þá sérstaklega hvað stærðfræðina varðaði. Þarna voru frábærir kennarar sem höfðu greinilega mikla ástríðu fyrir því sem þeir voru að gera og við fundum að þeir höfðu velgengni okkar að leiðarljósi. Frábært að fylgjast með þessu fólki að störfum, maður gat ekki annað en hrifist með. Stærðfræðikennarinn Hanna breytti til að mynda algjörlega viðhorfi mínu gagnvart þessu fagi en fyrir utan að vera frábær kennari tönglaðist hún á því sínkt og heilagt að stærðfræði væri skemmtilegust í heimi hér og ég fór bara að trúa þessu. Ekki má gleyma frábærum samnemendum, sem hjálpuðu mikið.  
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig gekk þér svo í náminu?
Ótrúlega vel held ég að sé óhætt að segja. Ég var mest hissa sjálfur á þessum árangri, ég dúxaði ekki en þetta var mikill sigur fyrir mig. Ég útskrifaðist þarna í lok árs 2009
og eftir veru mína hjá MSS öðlaðist ég sjálfstraust til að nema meira. Ég skráði mig í áframhaldandi nám hjá Keili á Suðurnesjum, því markmiðið var að ljúka stúdentsprófi. Ég hóf nám í janúar 2010 hjá Keili og við tók enn meira krefjandi verkefni. Hjá Keili eru frábærir kennarar og námið hentaði mér fullkomlega. Þetta var afar krefjandi og mjög erfitt á köflum en með hjálp góðs fólks í kringum mig, Silju konunnar minnar og dætra var þetta mögulegt. Svo var ég bara mjög duglegur, sat nánast öllum stundum og lærði. Ég útskrifaðist frá Keili með ígildi stúdentsprófs í mars 2011. Það var mikil ánægju- og sigurstund að taka við prófskírteininu úr hendi rektors á þessum degi.  
 

Hefur þetta breytt lífi þínu á einhvern hátt?
Þetta ferðalag hefur gert það að verkum að ég hef nú lykil að nánast hvaða háskóla sem er og svo gefur þetta bara lífinu svo allt annað gildi. Viðhorf mitt er gjörbreytt og það er auðvitað hverjum manni hollt að ögra sér aðeins og fara út úr þægindahringnum og prófa eitthvað alveg nýtt. Ég er ánægður með að geta nú aðstoðað stelpurnar mínar við sinn lærdóm en það hefði ég ekki getað hér áður og sérstaklega í stærðfræðinni. Að fá að skyggnast inn í bókmenntaarf þjóðarinnar með frábærum leiðbeinendum hefur verið mér hollt og það hefur gert það að verkum að bækur og bókabúðir eru gersemar í mínum huga og hvatt mig til að lesa meira og fræðast enn frekar.
 

Svona að lokum, nú er einhver þarna úti að lesa þetta og það kviknar á einhverjum neista. Hvað viltu segja við þá einstaklinga?
Ekki spurning í mínum huga, bara að skrá sig strax án þess að hugsa og ekki að hugsa of mikið fram í tímann, heldur að taka einungis einn dag í einu og njóta ferðarinnar því þetta eru forréttindi að fá tækifæri til að nema, það eru ekki allir í þeim sporum í heiminum. Viðkomandi á að hafa trú á sér og hafa hugfast að við mannfólkið getum miklu meira en við oft höldum. Þessi andlega næring sem námið gefur manni, eykur lífshamingjuna til muna, gefur lífinu lit og aukinn innblástur til enn betri verka.
Við þökkum Bjarna fyrir spjallið og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér Menntastoðir er bent á að vera í sambandi við Særúnu Rósu Ástþórsdóttur verkefnastjóra hjá MSS í síma 421-7500 eða skrifa henni á netfangið [email protected]

Anna Lóa Ólafsdóttir