Bjarnheiður þakklát og orðlaus yfir stuðningi
Gefur mikla von um stofnfrumumeðferð á Indlandi.
„Hæ hæ kæru vinir, ég er svo þakklát og alveg orðlaus yfir söfnuninni í maraþoninu. Ég var að fá uppgjör úr söfnununinni og þið sem voruð að safna áheitum söfnuðuð 4.038.000 krónum. Vá hvað ég er þakklát,“ segir Keflvíkingurinn Bjarnheiður Hannesdóttir í innleggi á styrktarsíðu sinni á Facebook.
Styrktarsjóður Bjarnheiðar var í öðru sæti í allri söfnuninni í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem fram fór í ágúst. „Þetta gefur mér mikla von um að ég geti komist til Indlands í stofnfrumumeðferð. Þið hafið gefið mér von og vonin er það sem ég held í, þökk sé ykkur. Ég er ykkur svo ótrúlega þakklát og á ekki orð til að lýsa þakklæti mínu. Þið eruð öll snillingar. Ást og kærleikur til ykkar, kær kveðja Heiða.“
Saga Heiðu hefur snert við mörgum, en hún fékk hjartastopp árið 2012 sem olli miklum heilaskaða.