Biskupinn gestur á Útskáladegi næsta sunnudag
Herra Karl Sigurbjörnsson biskup yfir Íslandi verður sérstakur gestur á hinum árlega Útskáladegi sem haldinn verður sunnudaginn 10. maí nk. Það er félagsskapur Hollvina Menningarseturs að Útskálum sem stendur fyrir hátíðinni sem er að verða árviss menningarviðburður þar sem velunnarar Útskála koma saman og eiga góða stund á kærum stað.
Fjölbreytt dagskrá verður í boði en hátíðin hefst kl. 14:00 með tónlist, fræðslu og loks veitingum sem verða í boði kvenfélagsins Gefnar. Kvenfélagið Gefn var stofnað að Útskálum 9. desember 1917.
Dagskrá Útskáladagsins er viðamikil en hún hefst með því að herra Karl Sigurbjörnsson biskup flytur hugvekju. Þá syngur Steinn Erlingsson við undirleik Steinars Guðmundssonar organista Útskálakirkju. Hinn kunni Garðmaður og textaskáld, Þorsteinn Eggertsson, rifjar upp liðna tíma í Garðinum.
Safnaðarnefndarformaðurinn Jón Hjálmarsson greinir frá stöðu og framgangi verkefna á vegum Menningarseturs að Útskálum og þá verða tónlistaratriði í umsjá Tónlistarskólans í Garði.
Eftir að formlegri dagskrá í kirkjunni lýkur verður Útskálahúsið skoðað þar er nú unnið að frágangi innanhúss. Veitingar í boði Kvenfélagsins Gefnar í gamla prestssetrinu að Útskálum.
Útskáladagurinn hefur þótt takast mjög vel og verið vel sótt hátíð. Þar eru allir hjartanlega velkomnir, segir í tilkynningu frá Hollvinum Menningarseturs að Útskálum.