Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Birmingham er yngsta borg Evrópu - græn og væn og ný hjá Icelandair
Selfridges byggingin í Bullring verslanamiðstöðinni í Birmingham. Ekkert grín með útlitið hjá Selfridges. VF-myndir/PállKetilsson.
Mánudagur 16. mars 2015 kl. 15:00

Birmingham er yngsta borg Evrópu - græn og væn og ný hjá Icelandair

Önnur stærsta borg Bretlands býður upp á all það helsta sem ferðalanga þyrstir í!

Birmingham er næst stærsta borg Englands en hefur vissulega staðið í skugganum af London og síðar Manchester sem vinsæll áfangastaður hjá Íslendingum. Eitthvað hefur hún þó að geyma úr því Icelandair bætti henni á áfangastaðalistann hjá sér og hóf áætlunarflug þangað í febrúar. Birmingham er yngsta borg Evrópu en um 40% íbúa eru yngri en 25 ára. Hún er ákaflega áhugaverð og á án efa eftir að verða vinsæl meðal íslenskra ferðalanga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tvisvar í viku
Icelandair flýgur tvisvar í viku til borgarinnar, á fimmtudögum og mánudögum. Víkurfréttir voru í fjölmiðlahópi sem sótti borgina heim á dögunum. Birmingham stendur svo sannarlega undir nafni sem fjölbreytt og skemmtileg borg. Hafandi farið mörgum sinnum til London og Manchester þá er ljóst að Birmingham hefur flest sem systurborgirnar hafa og síðan ýmislegt sem hinar geta ekki státað sig af. Rólegri en London en fjörugri en Manchester.

Verslun í toppmálum
Verslun er oftast í fyrsta sæti hjá Íslendingum þegar farið er í borgarferðir og þar er Birmingham í toppmálum. Þar er mikil hefð fyrir verslun og viðskiptum og í miðborginni er t.d. verslunarmiðstöðin Bullring en í henni eru 160 verslanir auk 25 veitingastaða og í næstu götum eru hundruð sérverslana. The Malbox er annað skemmtilegt verslunarsvæði og miklum stækkunarframvæmdum á því er að ljúka núna í vor. Þá má geta þess að BBC ríkisfjölmiðillinn er með skrifstofu sína fyrir miðlöndin í húsinu og þar gefst gestum kostur á að komast nær beinni útsendingu á sérstöku svæði sem er opið almenningi.                                                                                                                                     
Taktu þitt vín með þér á veitingastaðinn
Í borginni er svakalegt úval pöbba og veitingastaða og auðvitað fjörugt næturlíf. Þá  er Birmingham karrýborg Bretlands. Fjöldi múslima býr í Birmingham og kannski þess vegna eru yfir þúsund indverskra og asískra veitingastaða. Balti matseld er gríðarlega vinsæl og mikill fjöldi staðanna er í Balti þríhyrningnum en það er stórt svæði með Asíustemmningu. Þangað koma yfir 20 þús. manns í hverri viku og borða, versla og njóta lífsins. Balti nafnið tengist pönnu eða diski sem notaður er til að framreiða vinsælan karrýrétt í. Í verslunum í Balti þríhyrningnum er skartgripum gert hátt undir höfði en nærri helmingur demantasölu í Bretlandi er frá Birmingham.

Við sóttum einn indverska staðinn sem heitir Mughal e Azam en hann er í gamalli kirkju. Virkilega skemmtilegur veitingastaður í sérstöku umhverfi en gestir mega taka sitt eigið vín með eins og á mörgum fleiri Balti stöðum. Óvanalegt en gleðilegt fyrir Íslendinga. En Birmingham státar sig af enn frekari viðurkenningu í veitingamennsku því utan London er borgin með flesta Michelin veitingastaði, alls fjóra. Svo eru margir hipp og kúl staðir eins og The Cube sem er á 25. hæð í einum skýjakljúfnum í borginni. Hinn heimsþekkti kokkur Marco Pierre White er þar við stjórnvölinn.

Hluti af einkennum borgarinnar er mikill fjöldi síkja en vatn rennur um fleiri slíka kílómetra en í Feneyjum. Það er skemmtileg upplifun að fara í bátsferð um Birmingham og skoða hana þaðan með einn kaldan á kantinum en í bátunum eru barir, allt til þess að gestir gangi ekki þyrstir frá borði. Borgin er líka kunn fyrir fjölda grasagarða en yfir 8 þúsund eru í henni og Birmingham er þannig ein grænasta borg Bretlands.

 

Súkkulaði og fleira skemmtilegt í Birmingham

Hvort sem þú vilt fjör, fótbolta, listir og menning eða verslun er Birmingham að rokka. Hér eru nokkur dæmi:

Breska súkkulaðið Cadbury á heima í Birmingham. Það er áhugaverð heimsókn að fara í Cadbury World, fræðast um súkkulaðið, hvernig það er búið til og auðvitað fær maður að smakka. Enda svo heimsóknina á að fara í stærstu Cadbury súkkulaðverslun í heimi.

Eitt af flaggskipum borgarinnar er National SEA LIFE Centre, sædýrasafnið. Þar eru skjaldbökur og hákarlar og allt þar á milli sem getur rúmast í safni.

Ef maður vill fara í eitthvað sem tengist gamla tímanum í Englandi er tilvalið að heimsækja Warwick kastalann en þar erum við að tala um meira en þúsund ára sögu. Frá árinu 1978 hefur Warwick kastalinn verið opinn fyrir heimsóknir og á þeim tíma hafa fjölda sýninga verið opnaðar sem tengjast miðöldum. Árið 2013 voru opnuð herbergi sem höfðu verið lokuð. Í Warwick er hægt að eyða góðu hluta úr degi, þess vegna heilum degi því það er mikið að skoða.  Fleiri ævintýri er að finna fyrir alla fjölskylduna í sannkölluðu skógarævintýri í Cannock Chase og Wyre Forest. Fyrir meiri hraða og fjör er tilvalið að heimsækja Go Kart brautina F1K. Meðal áhugaverðra safna má nefna The Jewellery Quarter en þar eru fjögur söfn, m.a. pennasafn en hér á árum áður voru framleiddir pennar í milljónavís í Birmingham.

Back to Back housing er sérlega áhugaverður staður fyrir ferðalanga að sækja. Á 19. öld voru byggð „Back to back“ hús víða í Englandi. Þetta voru hrörleg hús ef svo má segja þar sem fólk þurfti virkilega að hafa fyrir því að halda á sér hita á köldum vetrardögum. Í þeim bjuggu mannmargar fjölskyldur við erfiðar aðstæður og mjög þröngan húsakost. Leiðsögumenn fara með gesti um húsin og segja frá sögu þeirra. Í leiðinni getur maður sett sig í spor þeirra sem bjuggu þarna. Í Birmingham hafa nokkur hús verið varðveitt og eru vinsæll viðkomustaður ferðalanga sem og margra heimamanna. Borgin hefur byggst hratt upp á unanförnum áratugum og margar eldri byggingar verið endurbyggðar en nýjar byggðar. Eitt glæsilegast hús borgarinnar er bókasafnið en það var opnað 2013 en arkitektinn sagði það eiga að vera „höll fólksins“.

Hið heimsþekkta skáld Shakespeare nýtur sín í þessari höll en hann er fæddur í smábænum Stratford sem liggur við ána Avon skammt frá. Í bænum er Royal Shakespeare-leikhúsið þar sem sýnd eru fjölmörg verk á hverju ári. Í Birmingham er líka glæsilegt listasafn, Birmingham Museum and Art Gallery (http://www.birminghammuseums.org.uk).

The Custard Factory er gott dæmi um vel heppnaða endurbyggingu í Birmingham. Þar var áður starfrækt verksmiðja en er nú eitt heitasti reiturinn í borginni þar sem saman koma verslanir, vinnustofur listamanna og salir með margvíslegum uppákomum. Yfir 500 fyrirtæki eru með aðsetur á svæðinu en á árum árum var þar framleiddur Alfred Bird krembúðingur. Nú fæðast þar nýjar hugmyndir á hverjum degi. Eftir að húsnæðið hafði staðið autt í tæpa tvo áratugi eftir flutning verksmiðjunnar fóru hlutir að gerast og nú er þetta einn vinsælasti staðurinn í borginni. Hann er á góðum stað og er t.d. í 5 mín. göngufæri frá Bullring verslunarmiðstöðinni.

Hótelgisting er fjölbreytt í Birmingham. Íslenskir ferðalangar gistu á Hotel La Tour en það er staðsett nokkur hundruð metra frá Bullring verslunarmiðstöðinni. Staðsetningin er frábær og hótelið er líka sérlega skemmtilegt en í því eru 174 herbergi. Þau eru vistleg með öllum helstu þægindum eins og t.d. góðu flatsjónvarpi. Þá er hita og ljósum stjórnað af snertiskjá á veggnum.

Þrátt fyrir nýmóðins útlit er hótelið vinsælt fyrir breskt síðdegiste fyrir gesti og gangandi en á hótelinu er góður veitingastaður sem býður upp á mjög veglegan morgunverð.

hotel-latour.co.uk

Það er rík íþróttahefð í borginni. Fótboltaliðin Aston Villa og Birmingham berjast um hylli borgarbúa en það fyrrnefnda er nú í efstu deild enska boltans. Villa Park tekur léttilega á móti 45 þús. fótboltaáhorfendum. Birminghamliðið er í næst efstu deild og eins og víðar er mikill rígur. Auk þessara tveggja er efstudeildarliðið WBA með aðsetur rétt utan borgarmarka og í næsta nágrenni þekkt lið eins og Coventry og Wolverhamton. Í ferð okkar skoðuðum við Edgbaston leikvang krikketliðsins Warwickshire Bear en það er í efstu deild íþróttarinnar í Englandi. Þar drípur krikketsagan af hverju strái en leikvangurinn er rúmlega 100 ára gamall. Hann var þó endurnýjaður fyrir þremur árum síðan fyrir 5 milljarða króna takk fyrir. Um 40 leikir fara þar fram yfir sumarið þegar leiktíðin stendur yfir en yfir veturinn er hann nýttur fyrir ýmsar uppákomur og fögnuði. Í sumar verður stórleikur milli Englands og Ástrala og er búist við yfir 100 þús. áhorfendum í fimm daga sem áætlað er að leikurinn standi yfir.

Það er ekki bara fótbolti og krikkett í Birmingham því þar eru flestar íþróttir stundaðar. Rugby eða ruðningur keppir við krikkett um vinsældir á eftir knattspyrnu en svo er golfíþróttin líka mjög vinsæl í og við Birmingham. Einn mest þekkti golfvöllur Bretlands heitir Belfry en hann er aðeins í um 15 mín. aksturfjarlægð frá flugvellinum. Það er alvöru golfsvæði með 3 golfvöllum og 300 herbergja gistiaðstöðu auk veglegrar æfingaaðstöðu og stærstu golfverslun í Englandi.

Belfry er þekktastur fyrir að þar hefur stærsta golfkeppni heims, Ryder-bikarinn, verið haldinn fjórum sinnum. Forest of Arden golfvöllurinn er líka í nágrenninu en þar hafa mörg mót á Evrópumótaröðinni farið fram. Fjöldi minna þekktra golfvalla er í og við borgina.

Sjá nánar um margt sem er að gera í borginni á visitbirmingham.com



Icelandair norðurljósavélin á flugvellinum í Birmingham vakti óskipta athygli.

Séð inn í Bullring verslanamiðstöðina, líf og fjör og úrval verslana og „molla“ er mikið í borginni.

Síkjasigling er skemmtileg afþreying í Birmingham.


 



The Cube veitingastaðurinn og barinn er á 25. hæð í einum skýjakljúfnum í borginni.

 

Ef fólk vill gera súper vel við sig þá eru fjórir Michelin veitingastaðir í borginni.


Suðurnesjamærin Guðrún Lilja Sigurðardóttir aðstoðarkona framkvæmdastjóra Icelandair kíkti við á The Cube veitingastaðinn sem er á 25. hæð í einum skýjaklúfnum í Birmingham. Hinn heimsþekkti kokkur Marco Pierre White sést á stórri mynd á bakvið.

Kolaport þeirra í borginni er stórt og mikið. Hér er mynd frá ávaxta- og grænmetismarkaði.

„Back to back“ húsin sýna hvernig hluti Englendinga bjó gamla daga.

Í Birmingham er eitt vinsælasta leikhús Bretlands en þar stíga verðandi stjörnur á stokk í Britain got talent sjónvarpsþættinum. Hér eru tveir ungir á ferð með sjónvarpsvélina á hælunum.

Hótelgisting er fjölbreytt í borginni. Hotel La Tour er eitt af mörgum og er mjög vel staðsett.

Villa Park fótboltavöllur Aston Villa úrvalsdeildarliðsins frá Birmingham.

Brabazon golfvöllurinn, einn af þremur á Belfry svæðinu. Skylduheimsókn fyrir kylfinga.