Birkir bissnessmaður og Jón lærði
Bókakonfekt stóð undir nafni í Bókasafni Reykjanesbæjar þegar höfundar tveggja jólabóka lásu úr þeim í gær. Annars vegar var það atvinnusaga og lífshlaup Birkis Baldvinssonar og hins vegar bókin um Jón lærða og nátttúrur náttúrunnar.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, fréttamaður og rithöfundur skrifaði bókina „Allt mitt líf er tilviljun“ og las úr henni. Hún segir frá ævintýralegu lífshlaupi Birkis Baldvinssonar sem fæddist á Siglufirði en kom ungur til Keflavíkur, upplifði lífsbaráttu móður sinnar sem vann í fiskvinnslufyrirtækinu „Stóru milljón“ og síðan fyrsta alvöru bissnessinn sem hann gerði, þegar hann með félaga sínum gerðu að humri í Höfnum á Reykjanesi og seldi varnarliðsmönnum. Framhaldið er lygasaga um einn ríkasta mann Íslands og undirtitill bókarinnar á vel við: „…úr saggafullum kjallara í hæstu byggingu heim“.
Bókin Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson hefur fengið glimrandi viðtökur og segir sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason að bókin sé ein af stórtíðindum þessarar bókatíðar. Keflvíkingarnir Svavar Steinarr Guðmundsson og Þorsteinn Surmeli reka ásamt öðrum bókaútgáfuna Lesstofuna sem gefa bókina út. Viðar las nokkra kafla úr bókinni og vöktu þeir óskipta athygli þeirra sem á hlýddu.
Við segjum meira frá bókunum í prentútgáfu Víkurfrétta í þessari viku.
Viðar Hreinsson, höfundur bókarinnar um Jón lærða og náttúrur náttúrunnar las kafla úr bókinni.
Þremenningarnir Viðar, Þorsteinn og Svavar Steinarr með bókina um Jón lærða.