Bíóverð á Ráðalausa menn
Á miðvikudag kynntu aðstandendur sýningarinnar Ráðalausir menn sem sýnd er í Tjarnarbíó, sýninguna fyrir nemendum Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Suðurnesjamaðurinn Siguringi Sigurjónsson höfundur verksins segir að nemendur hafi tekið heimsókninni vel. „Við erum að bjóða miða á sýninguna á 800 krónur, en það er bíóverð. Ég hef einnig verið að heimsækja fyrirtæki og bjóða þeim að skipuleggja skemmtiferðir þar hópar koma og sjá sýninguna. Sýningin er enn í gangi, en við höfum fengið mjög góða dóma um hana í dagblöðum. Það eru fjórar sýningar skipulagðar á næstunni. 16. og 19. nóvember og 5. og 12. desember,“ segir Siguringi, en leikhópurinn sem stendur að sýningunni er sjálfstæður. „Við erum með frábæra sýningu sem við viljum að lifi áfram. Við erum þakklátir fyrir hvað margir hafa komið héðan til okkar en viljum auðvitað sjá fleiri.“