Billiardkóngur sneri sér að lóðum og líkamsrækt
Keflvíkingurinn Guðbjörn Gunnarsson sem rak billiardstofu í Grófinni í Keflavík í nokkur ár söðlaði heldur betur um og hefur síðustu átta árin starfað sem einkaþjálfari í World Class í höfuðborginni. Billiardkónurinn fyrrverandi er sem sagt orðinn íþróttaálfur og leiðbeinir nú fólki í ræktinni.
Hvað er þetta með líkamsrækt og mataræði, erum við feita þjóðin ekkert að taka okkur á Bubbi?
„Við höfum verið sofandi á verðinum. Óheilbrigðar auglýsingar herja á okkur, t.d. það að diet drykkir séu ekki fitandi en líkaminn heimtar meiri mat í staðinn. Svo eru ákveðnar matarvenjur sem gagnast fólki lítið í dag þar sem fólk hreyfir sig minna en áður og kemst upp með minna.
Sykurneysla Íslendinga er orðinn skuggaleg. Við erum fíklar í sykur sem kallar á meiri sykur og öll vítamín líkamans fara í að losa líkamann við sykurinn og fara út með honum og skilur okkur eftir orkulaus. Við höldum að við lögum það með meiri sykri. Ef þú drekkur eina litla kók þarftu að drekka lítra af vatni til að hreinsa hana út.“
Hverjir sækja líkamsræktarstöðvar, eru þínir viðskiptavinir á öllum aldri og úr öllum starfsstéttum?
„Þar eru mikil forréttindi að vinna á svona flottum stað eins og World Class. Það er mikið álag á flestum í dag og það besta sem þú gerir fyrir líkama og sál er að hreyfa þig, ég fæ mínar bestu hugmyndir í ræktinni. Í dag er ég að vísu að sérhæfa mig í liðkun og léttingu, mikið af eldri mönnum eru stirðir og er ég með massíft teygjuprógram fyrir þá. Trúi því að ég hjálpi þeim best þannig.“
Hvað getur þú sagt við fólk sem hefur ekki haft sig í neina líkamsrækt og á í erfiðleikum með mataræðið?
„Æfðu markvisst og settu þér lítil markmið. Þú verður að gera þetta á heilbrigðum forsendum. Hreyfing eykur bjartsýni, örvar orku, sköpun og gáfu, slökun, jafnvægi, svefn og minnkar streitu svo eitthvað sé nefnt. Svo er lykilatriði að leita sér aðstoðar, viðurkenna að maður viti lítið.“
Hvað með þig sjálfan, æfir þú mikið?
„Já, ég er fíkill í að hreyfa mig. Uppáhaldið er sjósund en það er aðeins of kalt núna, er að æfa sjóstökkin í sundhöllinni í vetur. Ég lyfti 52 vikur ári, 3-5 sinnum í hverri viku en er ekki lengur en 25 mín. í hvert sinn. Með líkamsrækt vinnur maður á móti hrörnun líkamans. Það er ekkert kemur í staðinn fyrir það að hugsa um líkamann.“
Hvernig er lífið í borginni. Ertu ekkert á leiðinni aftur í bítlabæinn?
„Ég fór á KR-Kef í fótboltanum í sumar og var spurður hvort ég héldi ekki með Keflavík. Ég sagði einfaldlega; einu sinni Keflvíkingur, alltaf Keflvíkingur. Meira að segja dóttir mín sem hefur aldrei búið í bæjarfélaginu heldur með Keflavík.
Lífið er samt gott í borginni. Ég á 12 ára dóttur sem ég er mikið með og gefur mér mikla gleði. Það er gaman í vinnunni og spennandi tímar framundan í Markþjálfuninni sem ég býð upp á. Er líka að fara í fyrirtæki með fyrirlestra/heilsuátök og hef opnað heimasíðuna hvatning.com,“ sagði Bubbi að lokum.