Bílar frá 1929 og handdælur frá 1880
Slökkviliðsminjasafnið í Reykjanesbæ opið alla helgina.
„Við erum að reyna að segja sögu slökkviliða á landinu frá upphafi. Sýna þann búnað sem menn þurftu að notast við þegar slökkviliðin voru stofnuð og til svona 1980. Allt frá því að menn voru bara með handdælur og strigafötur,“ segir Ingvar Georg Georgsson, slökkviliðsmaður og annar umsjónarmanna safnsins. Hann og Sigurður Lárus Fossberg eiga heiðurinn að Slökkviliðsminjasafninu í Ramma-húsinu í Reykjanesbæ. Hugmyndin varð til þegar Sigurði var falið það verkefni að skrásetja alla ameríska slökkvibíla af árgerðum 1940 til 1980 vegna sögu þessara slökkvibíla á Norðurlöndum. Í þeirri vinnu, sem var víða um landið, sá hann að margir bílar og búnaður lágu undir skemmdum hér og þar. „Sigurður bað mig um að koma með sér í að opna safn og við réðumst bara í það og það er búið að vera hér í tvö ár.“
Ekki bara „geymsla“
Þeir félagar tóku inn slökkviliðsbíl, árgerð 1978, fyrir tveimur árum sem fór úr þjónustu það sama ár. „Það er enn verið að nota bíla úti á landi sem eru eldri en bílarnir hér á safninu. Hér eru elstu bílar frá 1929 og handdælur frá 1880. „Í gamla daga tók Erlendur Halldórsson nokkur að sér að búa til slökkvibíla, þegar menn voru með lausar dælur hér og þar. Hann breytti bílum og bjó til íslenska slökkvibíla. Svo er áhugaverð sýning um miðbæjarbrunann mikla 1915 í Reykjavík, þegar Hótel Reykjavík brann,“ segir Ingvar. Safnið var vígt á 100 ára afmæli Slökkviliðs Keflavíkur í apríl 2013. Þar er saga slökkviliðsins sögð í tímalínu uppi á vegg og notast við myndir og ýmsan búnað. „Fólk heldur kannski fyrirfram að það sé að koma í einhverja geymslu en svo tekur annað við inni og ég veit ekki um neinn sem hefur farið óánægður héðan út.“ Safnið er alltaf opið á sunnudögum milli kl. 13 og 15 en einnig á laugardag um safnahelgi.