Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Bílabíó á Keflavíkurflugvelli á miðvikudaginn
Mánudagur 1. október 2007 kl. 17:06

Bílabíó á Keflavíkurflugvelli á miðvikudaginn

Á Alþjóðlegri kvikmyndhátíð í Reykjavík, sem fram fer dagana 27. september til 7. október, verður meðal annars staðið fyrir bílabíói í flugskýli á varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll. Sýningin er hinn 3. október næstkomandi í flugskýlinu sem er stærsta bygging á landinu, og rúmar allt að 1500 bíla.

Sparisjóðurinn í Keflavík ásamt Keili og MasterCard styrkja verkefnið og af því tilefni ætlar Sparisjóðurinn að bjóða námsmönnum sínum miða í bílabíóið. Viðskiptavinir geta þá komið í afgreiðslur Sparisjóðsins og nálgast miða fram til kl. 16 miðvikudaginn 3. október.

Sú mynd sem fyrir valinu varð að þessu sinni er hin kunna American Graffiti, ekta bílabíósræma.

George Lucas leikstýrði, en hér segir frá fjórum vinum sem ákveða að rúnta um bæinn og njóta lífsins til fulls síðasta kvöld sumarsins, áður en þeir halda hver í sína átt til háskólanáms. Geta má þess að kornungur Harrison nokkur Ford stígur ein sín fyrstu skref á leiklistarbrautinni í téðri klassík, auk þeirra Rons Howards og hins óviðjafnanlega Richards Dreyfuss.

Sýningin verður á tveimur sýningartjöldum, svo fólk geti séð myndina úr tveimur áttum. Hljóðrásin verður síðan send út með útvarpssendi. 
Fólk er því hvatt að mæta í bílum sem státa af fyrirtaks viðtæki. 

Kynt verður undir stemninguna, því tíðnin verður nýtt til þess að útvarpa amerískri gullaldartónlist allan daginn.

Mörg ár eru liðin síðan kvikmyndaunnendum gafst síðast færi á að glápa á bílabíó, og því um að gera að bóna gamla skrjóð, klessa brilljantíni í hármakkann, hrækja í stéttina, troða sér í pínupilsið, hoppa í hjólaskautana og blasta gamla rokkmúsík; komast síðan á séns í aftursætinu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024