Bíla- og þjónustusýning í Reykjaneshöll
Nú um helgina, dagana 24. og 25. apríl stendur Knattspyrnudeild Keflavíkur fyrir bíla-og þjónustusýningu í Reykjaneshöllinni í Reykjanesbæ. Sýningarsvæðið er alls 6000 fermetrar og allt að 25 aðilar sýna vörur sýnar og þjónustu. Öll stærstu bílaumboð landsins verða á meðal þátttakenda, allar stóru fjármögnunarleigurnar sem og stóru tryggingafélögin. Þá er á meðal þátttakenda þjónustuaðilar fyrir bílaeigendur og einnig verða kynningar á garð og grillvörum svo eitthvað sé nefnt. Gera má ráð fyrir að allt að 80 nýir bílar verði til sýnis og sumar gerðir þeirra að koma fyrir augu almennings á Íslandi í fyrsta skipti. Þá verða nokkrar gerðir af fágætum bílum sem selst hafa í örfáum eintökum á Íslandi til sýnis og yndisauka fyrir hörðustu bílaáhugamennina. Á sýningarsvæðinu verða leiktæki fyrir börn og veitingaþjónusta fyrir gesti. Aðgangur er ókeypis.
Á sýningunni, sem er opin í dag og á morgun sunnudag frá kl. 10.00 til 18.00, mun einnig verða boðið upp á fjölbreytta skemmtidagskrá báða dagana á milli 14.00 og 16.00 þar sem fjölmargir skemmtikraftar af Suðurnesjum og víðar munu troða upp. Má þar nefna Rúnar Júlíusson, Árna Johnsen, Bláu augun, atriði úr sýningu Fjölbrautaskóla Suðurnesja um Hljóma, Harmonikkuunnendur á Suðurnesjum og Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Þá er vitað að einhver bílaumboðanna mun bjóða upp á atriði m.a. eitt með Idolstjörnunni Kalla Bjarna.
Af hálfu Knattspyrnudeildar Keflavíkur hefur verið lagður metnaður í að sýningin verði sem glæsilegust enda hafa með tilkomu knattspyrnuhallarinnar skapast gríðarlegir möguleikar á þessu sviði og gert er ráð fyrir miklum fjölda gesta bæði af Suðurnesjum og stór Reykjavíkur svæðinu.