Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Bíður eftir því að Léttbylgjan byrji að spila jólalög
Mánudagur 24. desember 2018 kl. 07:00

Bíður eftir því að Léttbylgjan byrji að spila jólalög

Sérstakt en skemmtilegt að eiga afmæli á aðfangadag, segir Þorsteinn Þorsteinsson

Það er svolítið sérstakt að eiga afmæli á aðfangadag. Eflaust hugsa margir að það sé ekkert sérstakt. Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Blue Car rental er einn þeirra sem hefur oft opnað pakka fyrir hádegi og seinni partinn á aðfangadegi. Hann er mikið jólabarn og byrjar að hlusta á Léttbylgjuna þegar jólalögin byrja að óma þar löngu fyrir jól. En nú eru stór tímamót hjá kappanum sem fagnar þrítugsafmæli og nýjum erfingja á nýju ári. Hér koma svör Þorsteins við jólaspurningum VF:

Hvernig hefur það verið að eiga afmæli á aðfangadag?
Að eiga afmæli á aðfangadag er svolítið sérstakt en á sama tíma skemmtilegt. Það vekur ávallt bæði spurningar og lukku þegar einhver kemst að því að ég eigi afmæli þennan dag. Fyrsta spurningin er nær undantekningalaust hvort ég hafi alltaf fengið sameiginlega jóla- og afmælisgjöf. Mamma passaði hinsvegar alltaf vel uppá það að ég fengi nú örugglega tvær gjafir og fyrir vikið er auðvitað einstaklega gaman hjá mér á daginn minn, enda fæ ég pakka bara einu sinni á ári!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar ég var yngri þá var haldið uppá daginn aðeins fyrr. Eflaust margir foreldar fegnir að losna aðeins við krakkanna út úr húsi þarna rétt fyrir jól. En við fjölskyldan höfum alltaf haldið í þá hefð að halda uppá afmælið fyrir hádegi á aðfangadag. Það má því í raun segja að minn dagur sé fyrir hádegi, svo veltur það bara á því hversu snemma ég nenni að vakna!

Hvernig er það svo í dag og við höfum haft fregnir af því að það verði stór tímamót núna hjá þér?
Ég er mjög mikið jólabarn og elska allt í kringum jólin. Ætli það tengist því ekki eitthvað að ég eigi afmæli þennan dag. Síðustu ár hef ég boðið fjölskyldunni út að borða rétt fyrir jól þannig að ákveðnu leyti hefur þetta lítið breyst síðan maður var krakki. En allt er breytingum háð og jólahefðir þar á meðal. Þessi jól og í framtíðinni ætla ég að gera Þorláksmessukvöld svolítið að mínu kvöldi með fjölskyldunni. Fá alla yfir í heimsókn og eiga kvöldstund til að fagna enn einu árinu. Það er að vísu ákveðin tilvistarkreppa í gangi þessi jól í ljósi þess að maður er að verða þrítugur. Við tökum kannski mínútu þögn á einhverjum tímapunkti! En að öllu gríni slepptu þá verður gaman að hefja sína eigin hefð núna og fagna því á næstu árum með frumburðinum okkar Elísu sem kemur í heiminn á næsta ári.

Eru fastar hefðir í fjölskyldunni hjá þér á jólum?
Eins og eflaust allsstaðar erum við með ýmsar hefðir í okkar fjölskyldu. Möndlugrauturinn er þar mikilvægur ásamt því að heimsækja þá ástvini okkar sem hafa kvatt. Annars erum við fjölskyldan heldur róleg yfir þessu öllu saman og ekki mikið að halda í einhverjar sérstakar hefðir. Viljum bara fá að eyða tíma saman með hvort öðru.

Hvenær eru jólin komin hjá þér?
Eins og ég nefndi þá er ég mikið jólabarn. Þetta árið fór ég á jólatónleika í nóvember og er stoltur af því! Ég er einn af þeim sem bíð eftir því að Léttbylgjan byrji að spila jólalögin. Þá leyfi ég mér að hlakka til jólanna. Það er þó oftar en ekki einhver ákveðinn áfangi eða atburður sem raunverulega ýtir manni yfir línuna og kemur manni í jólafílinginn. Jólatónleikar, jóla-utanlandsferð eða klára önnina í náminu sem ég sinni til hliðar.

Eftirminnilegasta jólagjöfin og afmælisgjöfin?
Það er ansi erfitt að gera upp hver eftirminnilegasta afmælisgjöfin er. Ein þeirra hlýtur að vera þegar ég var vakinn um morguninn og drifinn uppá flugvöll því það átti að fara á leik í enska boltanum. Við enduðum hinsvegar fljótlega aftur heima þar sem að veðurguðirnir voru ekki í sama jólaskapi og við! Það gekk þó allt upp að lokum. Önnur eftirminnileg gjöf er þegar pabbi ákvað, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, að gefa mér Bob-borð. Fyrsta og eina skiptið sem ég hef heyrt um eða séð slíkt og var ákveðinn skellur þegar ég hélt að Play Station 1 væri í pakkanum!

Annars hlýtur eftirminnilegasta jólagjöfin að vera ég sjálfur. Það segir mamma mín allavega alltaf.