Biðu í röðum eftir Kids Sound Lab, flugferð og Bláa lóninu
Þrjú fyrirtæki með sterkar rætur á Suðurnesjum gerðu það gott á fjórtán þúsund manna ráðstefnu a vegum bandarískra heyrnar- og talmeinafræðinga í Chicago í vikunni sem talmeinafræðingar alls staðar að úr heiminum sækja. Raddlist í Reykjanesbæ, sem nýlega gaf út mál- og framburðarefni í App formi sem heitir „Lærum og leikum með hljóðin“, kynnti enska APP útgáfu á ráðstefnunni KIDS SOUND LAB.
Mörghundruð í biðröð
Heppnum gesti var einnig boðin ferð til Íslands með Icelandair og að sjálfsögðu að upplifa dekurferð í Bláa Lónið. Eitt þúsund og fjögur hundruð talmeinafræðingar stóðu í biðröð til að kynna sér efni KIDS SOUND LAB og það kom alls ekki að sök að eiga möguleika á að fljúga til Íslands og upplifa Bláa lónið.
Einstök upplifun góð þjónusta
„Þetta voru hreint frábærar móttökur fyrir nýtt lítið sprotafyrirtæki á Íslandi og ekki síst mikilvægt að geta minnt á aðkomu svo sterka og áhugaverðra aðila sem Icelandair og Bláa lónið eru greinilega,“ segir Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur og höfundur efnisins KIDS SOUND LAB. „Nokkrir sem ég ræddi við höfðu farið í Bláa lónið og áttu ekki orð til að lýsa þeirri upplifun. Einnig kom fram að margir höfðu flogið með Icelandair og sögðust ekki hafa notið þjónustu betra flugfélags. „Við vorum auðvitað mjög stolt að heyra þetta. Fólk sýndi þessari „íslensku blöndu“ mikinn áhuga,“ segir Bryndís ennfremur.
Mikill stuðningur hjá sendiráðum
Þá segir hún að hún hafi notið mikils stuðnings íslensku sendiráðanna erlendis og Íslandsstofu sem hafa gefið góðar leiðbeiningar um hvernig lítið sprotafyrirtæki geti kynnt vöru sína á erlendum mörkuðum. Íslenska smáforritið Lærum og leikum, með hljóðin sem kynnir íslensku málhljóðin í sömu röð og börn tileinka sér þau í máltökunni, er styrkt af Menntamálaráðuneytinu og Barnamenningarsjóði. Smáforritið Kids Sound Lab kynnir ensku málhljóðin í sömu röð og enskumælandi börn tileinka sér hljóðin. Átak til Atvinnusköpunar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands styrkir Kids Sound Lab.