Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Besta útisturta í heimi á Reykjanesi
Gylfi Jón Gylfason og annar gesta hans, Paula Fatia, í fjörunni við Garðskagavita.
Þriðjudagur 4. febrúar 2014 kl. 15:20

Besta útisturta í heimi á Reykjanesi

- Bauð ferðamönnum gistingu sem höfðu tjaldað í skrúðgarðinum.

„Þegar ég segi fólki að ég eigi bústað á Reykjanesi spyr fólk stundum: Hvers vegna í ósköpunum þar? Ég svara því gjarnan til að hvergi sé Ísland fegurra en einmitt þar og mannlíf best í heimi hér. Það gengur ekki alltaf vel að útskýra að annað sé til en Gullfoss og Geysir,“ segir Gylfi Jón Gylfason, fræðslustjóri Reykjanesbæjar. Hann á sumarhús á landi Hafurbjarnarstaða, en það er gömul landnámsjörð í Sandgerði.

Engin tölva og ekkert sjónvarp

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Húsið notar hann sjálfur 10 daga í mánuði og segir strangar reglur gilda þar, svo sem að ekki má vera með tölvu og aðeins má nota síma til þess að hringja. Þar er ekkert sjónvarp en það má stilla á Bylgjuna. „Ég nota rekavið til að kynda upp. Brimið þarna og fuglalífið hafa einstök áhrif á Suðurnesjastrákinn í mér,“ segir Gylfi Jón.
 

Tjölduðu í skrúðgarðinum

Rocky Vachon og Paula Fatia frá Kanada voru gestir Gylfa Jóns í fyrrasumar og hann segir þau hafa fallið flöt fyrir mannlífi og náttúrufegurð á Suðurnesjum. Hann sá út um gluggann á skrifstofunni sinni á bæjarskrifstofunni að þau höfðu tjaldað í skrúðgarðinum innan um framkvæmdir. Hann gekk út til þeirra, kynnti sig og komst að því að þau voru strand vegna þess að þau biðu eftir að fá mótorhjólið sitt afgreitt úr tollinum í Kanada. „Ég bauð þeim þá í mat og svo gistingu í sumarhúsinu mínu næstu tvær vikur. Þau höfðu ákveðið að selja allt sitt, kaupa mótorhjól og ferðast svo um heiminn. Síðan urðu þau par,“ segir Gylfi Jón.

Bestu sturtuferðirnar í vetrarhríð

„Rocky er snillingur með myndavélina og sannar að glöggt er gests augað. Næst þegar ég verð spurður: Af hverju í ósköpunum áttu bústað á Reykjanesi, ætla ég að sýna þeim myndirnar hans Rocky. Paula segir að útisturtan í bústaðnum sé besta útisturta í heimi,“ segir Gylfi Jón og bætir við að bestu sturtuferðirnar séu þegar hríð er úti. „Þá finnur maður fyrir heitri sturtunni en fær jafnframt hríðina og vindinn í andlitið. Manni verður heitt og kalt á sama tíma og það er mjög hressandi,“ segir Gylfi Jón að lokum.

Meðfylgjandi eru myndir af vefsíðu Rockys og Paulu en fleiri myndir má sjá á síðunni þeirra, sem inniheldur einnig ítarlega ferðasögu þeirra og lýsingar af upplifun þeirra af landi og þjóð. Þau eru nýbúin að uppfæra síðuna og bæta inn sögunni frá dvöl sinni á Reykjanesi, en þau gefa sér tíma í skrif öðru hverju, á milli þess sem þau ferðast um heiminn.

Útisturtan góða.

Sumarhús Gylfa Jóns.

Gylfi Jón sýnir þeim náttúrufegurðina.

Fjöldi fallegra mynda er á síðunni.

VF/Olga Björt