Besta áramótaheitið að gera eitthvað fyrir sjálfa sig
Grindvíkingurinn Birgitta Hrund Káradóttir hefur strengt þónokkur áramótaheit í gegnum tíðina og hefur náð að standa við sum þeirra og önnur ekki. Stórfjölskylda hennar hittist öll heima hjá henni en árið 2017 var viðburðarríkt þar sem fæðing nýjasta fjölskyldumeðlimsins stóð upp úr.
Hvar verður þú um áramótin?
Ég verð heima hjá mér um áramótin með stórfjölskyldunni.
Hvað ætlar þú að borða um áramótin?
Við eldum kalkún og reyktan hátíðarkjúkling.
Strengir þú eða hefur þú strengt áramótaheit?
Já, ég hef sko strengt áramótaheit og strengi reglulega áramótaheit þar sem ég ætla að venja mig af ýmsum ósiðum, sem og megrunin auðvitað. Besta áramótaheit sem ég hef strengt var þegar ég ákvað að gera eitthvað fyrir sjálfa mig á hverjum degi. Bara að taka smá stund úr deginum til að hugsa um líkama eða sál, ræktin, göngutúr, lestur, hárþvottur, naglalakk og svo framvegis. Það var örugglega besti árangurinn í áramótaheitunum, ég náði því alveg fram í mars.
Hvað stendur upp úr á árinu hjá þér?
Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn í fjölskyldunni, Freyja Mekkín, fædd 23. maí.
Eru einhverjar áramóta/nýárshefðir hjá þér?
Á áramótunum safnast stórfjölskyldan saman heima hjá okkur, borðar saman, sprengir flugelda og svo er venjulega spilað eftir að börnin eru farin í rúmið.