Mannlíf

Best búna sjúkradeildin
Laugardagur 28. október 2023 kl. 06:08

Best búna sjúkradeildin

Starfsfólkið haft með í ráðum og fékk að velja það besta

Ný sjúkradeild sem opnuð var á dögunum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er best búna þannig deild á landinu. Þar eru nítján rými í eins- og tveggja manna herbergjum. Einstaklingsherbergin eru útbúin með lyftubúnaði sem auðveldar rúmliggjandi sjúklingum að komast á baðherbergi. Þá eru margmiðlunarskjáir við öll rúm á deildinni þar sem sjúklingar geta horft á sjónvarp eða náð sér í aðra afþreyingu á veraldarvefinn. Allir fá sín heyrnartól þannig að engin truflun á að verða fyrir stofufélaga á tveggja manna herbergjum.

Bryndís Sævarsdóttir, deildarstjóri á sjúkrahússviði, mun stýra sjúkradeildinni sem er á þriðju hæð D-álmu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Hún segir í samtali við Víkurfréttir að nýja sjúkradeildin breyti miklu í átt til öryggis. „Toppurinn í þessu er öryggi sjúklinga og starfsmanna. Ég get nefnt sem dæmi að öll einbýlin okkar eru með fullkominni einangrunaraðstöðu þar sem við höfum fordyri þar sem starfsfólkið klæðist úr og í hlífðarfatnaði. Inni á stofunum er neikvæður loftþrýstingur sem gerir það að verkum að sýkingar berast síður út. Það eykur öryggi starfsfólks og annarra sjúklinga. Þá erum við með fullkomið afþreyingarkerfi fyrir sjúklinga þar sem þeir komast í sjónvarp og tölvu. Við getum sent þeim upplýsingar og fræðslu. Við erum einnig með fullkomið kallkerfi fyrir sjúklingana. Ef sjúklingur er í einangrun þá getum við talað við hann áður en farið er inn til hans til að spara starfsfólki vinnu,“ segir Bryndís.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Bryndís segir nýju stofurnar vera mjög rúmgóðar og deildin sé öll vel tækjum búin. Þangað sé að koma hjartasíriti og ytri öndunarvél, sem hafi ekki verið til staðar áður. „Það var alveg kominn tími til að Suðurnesjamenn fái deild sem er hönnuð frá grunni sem sjúkradeild,“ segir Bryndís.

Lyftukerfin á einstaklingsstofunum eru einnig til mikilla þæginda fyrir bæði sjúklinga og starfsfólk. Áður þurfti að fara með sérstakan lyftubúnað að hverju rúmi hjá rúmliggjandi til að koma þeim á salerni eða í bað. Þetta sé bylting.

Margmiðlunarskjáir við öll rúm eru til marks um það að fleiri af þeirri kynslóð, sem hafa alist upp við þessa tækni, eru brátt að verða skjólstæðingar sjúkradeildarinnar. „Þau geta farið í tölvuleiki í þessum tækjum ef þau vilja,“ segir Bryndís og kímir.

Á annarri hæð Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja verður opnuð hjúkrunardeild sem mun sinna hjúkrunarsjúklingum sem eru að bíða eftir að komast á hjúkrunarheimili. Hluti þeirra sjúklinga sem voru áður á annarri hæðinni voru fluttir upp á nýju sjúkradeildina en níu einstaklingar voru áfram á hjúkrunardeildinni. Með tíð og tíma er gert ráð fyrir að sjúklingum á hjúkrunardeildinni fjölgi og með nýrri sjúkradeild og hjúkrunardeild er verið að fjölga plássum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Samhliða nítján rýmum á sjúkradeildinni á þriðju hæðinni munu tvö herbergi á annarri hæð einnig heyra undir deildina. Þar er um að ræða líknarþjónustuna sem verður sinnt á milli hæða, a.m.k. til að byrja með.

Bryndís segir að ný sjúkradeild sé að leggjast vel í sitt starfsfólk. Þegar Víkurfréttir ræddu við Bryndísi daginn áður en deildin opnaði formlega sagði hún starfsfólkið spennt að takast á við nýtt verkefni. „Okkur líður eins og við séum að bíða eftir jólunum þegar við flytjum á morgun,“ sagði Bryndís. Hún er ekki í vafa um það að nýja sjúkradeildin hennar sé sú best búna á landinu. Undirbúningur hafi staðið yfir í tvö ár og starfsfólkið hafi verið haft með í ráðum og fengið að velja það besta sem völ er á. „Þetta reynda starfsfólk sem er búið að vinna við þetta hérna í mörg ár fékk alveg að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Ég held að við fáum ekki betra vinnuumhverfi,“ segir Bryndís Sævarsdóttir og vonast til að með svona góðum vinnustað fáist enn fleira fagfólk til starfa við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.