Best að fólk finni nám við hæfi
Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur starfað síðan haustið 1976 þegar Iðnskóli Keflavíkur og framhaldsdeildin við Gagnfræðaskólann í Keflavík voru sameinaðir. Kristján Ásmundsson, skólameistari, segir gott starf eiga sér stað í skólanum og ánægjulegt sé að fylgjast með ungu fólki blómstra, hverju og einu, í styrkleikum sínum. Hann leggur áherslu á að skólinn leggi upp úr því að fólk fái nám við hæfi.
Hafragrautur og lýsi á morgnana
Sagt er að morgunmatur leggi grunn að góðum degi. Í FS er nemendum og starfsfólki boðið upp á hafragraut og lýsi á morgnana. Þetta hefur mælst vel fyrir undanfarin ár. Elsti nemandi skólans er fæddur 1955 og sá næstelsti 1963. Rúm tólf prósent nemenda við FS eru eldri en 20 ára. Meirihluti nemenda er á stúdentsbrautum, eða 55 prósent, 28 prósent í starfs- og verknámi og aðrir á almennum brautum eða starfsbraut. Í FS er blómstrandi félagslíf undir stjórn nemendafélagsins skólans, NFS. Meðal atburða eru Hljóðneminn, Morfís, Kosningavika, Árshátíð, Framhaldsskólamót og einnig verður settur upp söngleikur á vegum nemendafélagsins í vor, en æfingar eru hafnar.
Aukning á tölvusviði
Fjölbrautakerfi býður upp á ýmsa möguleika og nemendur geta fundið eitthvað við sitt hæfi og á þeim hraða sem hentar þeim best. Þá rekur skólinn starfsbraut fyrir nemendur sem hafa ekki forsendur til að stunda nám á öðrum námsbrautum framhaldsskólans. Reynt hefur verið að útbúa góða kennsluaðstöðu fyrir starfsbrautina, Meðal meðal annars hefur verið útbúið séreldhús fyrir starfsbraut sem notað er til heimilisfræði- og matreiðslukennslu.
Hraðferðin er í boði fyrir mjög duglega nemendur á stúdentsbrautum sem vilja flýta fyrir sér í námi. Smíðasmiðjan eflir ungt fólk til þess að gera gagn og þar eru t.a.m. leikföng smíðuð sem eru svo gefin leikskólunum. Einhver breyting hefur orðið í aðsókn á milli brauta. Tölvunarfræði- og tölvuþjónustubraut er til að mynda mjög vinsæl í haust og einnig hraðferðalínan, en þar komust færri að en vildu. Heldur fækkaði í verknámi við hrun, mest á tréiðnbraut og tréiðn, en aðsóknin er heldur að aukast aftur. Vélstjórnin hefur einnig komið vel út.
Fljótandi skil sækja í sig veðrið
Í samstarfi við grunnskólana á Suðurnesjum er boðið upp á fjóra valáfanga. Þessir áfangar eru STÆ 103, ENS 103 og áfangar í smíðum og rafiðn. Tímarnir eru einu sinni í viku á miðvikudögum og þá tveir í röð. Um 100 nemendur frá öllum grunnskólum á Suðurnesjum nýta sér þessa þjónustu. Þeim er ekið í skólann og komast svo með strætó eða skólabílunum til baka. Í sumum tilfellum hafa foreldrar keyrt börnin sín en sveitarfélögin sjá einnig um ferðirnar. Viðræður eru í gangi við grunnskólana um að auka svokölluð fljótandi skil á milli skólastiga í FS. Þeim er ætlað að auðvelda öflugum nemendum í 10. bekkjum grunnskólanna að taka fyrr framhaldsskólaáfanga í FS. Þannig geti þau flýtt fyrir sér í námi og fengið nám við hæfi. Kristján telur að um sé að ræða 10 prósent nemenda í hverjum árgangi sem geti auðveldlega ráðið við þetta. Ef allt gengur eftir geti þeir jafnvel verið búnir með 12 -18 einingar, allt að heilli önn, áður en þeir koma í framhaldsskóla. Einnig er grunnskólanemum boðið upp á að kynna sér fjóra áfanga sem sumir eru ekki kenndir í grunnskólum. Þessir áfangar eru STÆ 103, ENS 103 og áfangar í smíðum og rafiðn. Tímarnir eru einu sinni í viku á miðvikudögum og þá tveir í röð. Um 100 nemendur frá öllum grunnskólum á Suðurnesjum nýta sér þessa þjónustu. Þeim er ekið í skólann og komast svo með strætó eða skólabílunum til baka. Í sumum tilfellum hafa foreldrar keyrt börnin sín en sveitarfélögin sjá einnig um ferðirnar.
Við litum við í tíma hjá kennurunum Ásdísi Björku Pálmadóttur í háriðnum, Hildi Skúladóttur á tölvuþjónustubraut, Katrínu Sigurðardóttur í textíl, Ólafi Baldvini Sigurðssyni í rafiðnum, Gunnari B. Valdimarssyni í smíðum og Ívari Valbergssyni í vélstjórn og fengum að smella af nokkrum myndum.