Bergið lýst bleikt í kvöld
Í októbermánuði verður vakin athygli á brjóstakrabbameini hér á landi, sjötta árið í röð. Þetta er hluti af alþjóðlegu árveknisátaki, að frumkvæði Estée Lauder, en bleik slaufa er alþjóðlegt tákn átaksins. Ár hvert greinast 160-170 íslenskar konur með brjóstakrabbamein. Sjö til átta af hverjum tíu konum geta vænst þess að læknast. Hér á landi eru konur á aldrinum 40-69 ára boðaðar til brjóstakrabbameinsleitar á tveggja ára fresti. Konur eru hvattar til að nýta sér boð um brjóstamyndatöku, því röntgenmyndataka er öruggasta aðferðin til að finna krabbamein í brjóstum á byrjunarstigi. Konur eru einnig hvattar til að skoða og þreifa brjóst sín reglulega. Þær finna hvað hefur breyst frá síðustu skoðun og mikilvægt er að leita læknis ef einhver breyting finnst. Rétt er þó að hafa í huga að flestir hnútar í brjóstum eru góðkynja.
Þann 1. október kl. 19.30 verður Bergið í Reykjanesbæ lýst upp í bleikum lit á vegum Krabbameinsfélags Suðurnesja og Reykjanesbæjar til að minna á átakið.
Til styrktar átakinu á landsvísu verða til sölu langermabolir í versluninni B-YOUNG að Laugavegi 83, Reykjavík. Allur ágóði af sölu bolanna muni renna til rannsókna á brjóstakrabbameini hér á landi. Minnt er á póstþjónustu verslunarinnar.
Bleikar slaufur verða til sölu á útsölustöðum Estée Lauder og í versluninni Koda Hafnargötu 15 í Reykjanesbæ. Ágóði af sölu slaufanna rennur til styrktar baráttunni gegn brjóstakrabbameini.
Sturtuspjald með leiðbeiningum um sjálfskoðun brjósta fæst gefins á skrifstofu Krabbameinsfélags Suðurnesja að Smiðjuvöllum 8 í Reykjanesbæ. Skrifstofan er opin kl. 13.00-17.00 á miðvikudögum og kl. 9.00-13.00 á fimmtudögum.
Ýmsar gagnlegar upplýsingar um brjóstakrabbamein og árveknisátakið má finna á vefnum krabb.is og bleikaslaufan.is
Krabbameinsfélag Suðurnesja