Beltisþari, þorskur og kótilettur í Dunhaga
Keflvíkingurinn Dagný Alda rekur veitingastað á Tálknafirði
Dagný Alda Steinsdóttir rekur veitingastaðinn Cafe Dunhaga á Tálknafirði yfir sumarmánuðina þar sem hún býður ferðamönnum og heimamönnum upp á mat í héraði í skemmtilegri umgjörð.
Ég ákvað að líta við hjá þessari kjarnakonu sem er innanhússarkitekt og með MA í menningarstjórnun en hefur tekið að sér mörg ólík verkefni og má þar nefna kosningastjórn og framboð til sveitarstjórnar sem og nýsköpun í byggingariðnaði og þá vakti hún athygli þegar hún leiddi mótmæli gegn kísilveri í Helguvík.
Tálknafjörður er ekki stór bær, þar búa rúmlega tvö hundruð manns og margir vinna þar við fiskeldi sem er vaxandi atvinnugrein á Vestfjörðum. Ég ek í gegnum bæinn og þá blasir fljótlega við mér stórt timburhús sem áður þjónaði sem félagsheimili. Dunhagi er við sundlaug bæjarins og tjaldstæði og því mikill fjöldi ferðamanna sem á þar leið um.
If you can´t stand the heat, get out of the kitchen
Þegar ég geng inn í þetta sögufræga hús heyri ég strax hlátrasköll sem koma úr eldhúsinu. Ég læt vita af mér og fljótlega kemur Dagný fram og fagnar mér með svuntu um sig miðja og roða í kinnum eða eins og menn segja í Ameríkunni: „If you can´t stand the heat, get out of the kitchen.“ Dagný þekkir þar vel til enda bjó hún í Arizona í 26 ár áður en hún flutti heim til Íslands.
Hún biður mig að hinkra meðan hún klárar í eldhúsinu og ég nota tækifærið og skoða mig um. Við innganginn hangir beltisþari sem hefur verið þurrkaður og á viðargólfunum sem hafa verið gerð upp eru fallegar mottur sem gera staðinn hlýlegan. Á veggjum er upprunalegur panill en aðrir veggir hafa verið málaðir í skærum litum. Stigi liggur upp á efri hæð en þar er salur sem leigður verður út til veisluhalda.
Eftir nokkra stund gefur Dagný sér tíma til þess að setjast niður með mér á pallinum fyrir utan Dunhaga en þar er stórkostlegt útsýni yfir fjörðinn í einstakri fuglaparadís.
Krían er nokkuð skæð og við sjáum skelkaða ferðamenn snúa aftur bogna í baki og hlaupandi við fót eftir að hafa gert tilraun til þess að ganga meðfram veginum.
„Krían þarf að fá frið“, segir Dagný en nú stendur varptíminn sem hæst. „Erlendu ferðamönnunum finnst gaman að skoða sig um en þetta er hennar varpsvæði og allur umgangur hefur slæm áhrif á varpið,“ segir Dagný og er mikið niðri fyrir. „Fólk verður að virða það.“
Hvernig stendur á því að þú ert að reka veitingastað á Tálknafirði af öllum stöðum?
„Það vill þannig til að móðurfólkið mitt er héðan úr Tálknafirðinum. Afi minn og amma og sömuleiðis langafi og langamma voru bændur á Innstu Tungu en þar fæddist móðir mín, Hildur Guðmundsdóttir, á baðstofuloftinu. Ég kom oft í sveitina til afa og ömmu og síðar fluttum við fjölskyldan vestur í nokkur ár þegar faðir minn Steinn Erlingsson réði sig sem vélstjóra á Maríu Júlíu sem var gerð út hér á firðinum.”
Þú leggur einmitt mikla áherslu á fólkið hér á Dunhaga en á veggjum má sjá fjöldann allan af gömlum ljósmyndum af fólkinu sem hér bjó.
„Já ég tók mig til og safnaði gömlum myndum af fólki héðan af svæðinu og rifjaði upp sögu þeirra með gömlum frændum sem enn muna gamla tíma. Úr varð myndasafn og krassandi sögur sem heilla ferðamanninn, enda staður ekkert án fólks.”
Ferskt hráefni úr héraði
Hugmyndin að rekstrinum kviknaði árið 2013 þegar Dagný var fyrir vestan um páska og þá fannst henni bagalegt að hvergi væri hægt að tylla sér niður til að fá sér kaffi eða öl.
„Mér leist vel á Dunhaga enda rótgróið félagsheimili með veitingaaðstöðu sem lítið var nýtt. Ég leitaði því til kvenfélagskvenna sem áttu húsið og þær samþykktu að leyfa mér að opna matsölustað þá um sumarið. Og hér er ég enn segir Dagný og hlær hressilega.
Dagný leggur áherslu á gott hráefni úr firðinum og þar er af nógu að taka.
„Ég er að sjálfsögðu mikið með fisk enda nóg af honum hér. Þorskinn, karfann og rauðsprettuna kaupi ég á strandveiðimarkaðnum, silunginn frá eldinu hér á Tálknafirði og svo auðvitað íslenska lambakjetið sem er auðvitað best. Í sumar hafa lambakótilettur í raspi með heimagerðu rauðkáli, steiktum rófum og turmeric kartöflumús slegið í gegn og þá er Tungusilungurinn sívinsæll og þykir með betri silungi sem alinn er hér á landi. Hann er borinn fram með villisvepparísottó, djúpsteiktum beltisþara, hundasúru og fjörukálssalati. Þá er tilvalið að fá sér heita rabbarbaraköku með þeyttum rjóma í eftirrétt - er eitthvað íslenskara en það?“ spyr Dagný ákveðin.
Ég verð að spyrja, beltisþari?
„Ég reyni að nota allt sem vex hér í kring eins og grös og jurtir en beltisþarinn er ný uppgötvun hjá mér. Hann verður að tína á vissum tímum og svo er hann þurrkaður en hann er bæði ríkur af steinefnum og vítamínum og gott meðlæti með fiskinum.“
Félagsheimilið Dunhagi var byggt árið 1931 af stórstúkunni en þegar húsinu var breytt í samkomuhús dunaði dansinn í Dunhaga. Að sögn Dagnýjar er það húsið sem skapar umgjörðina um matinn og menn finni sálina og söguna þegar þeir stíga fæti inn á timburgólfið.
„Nú höfum ég og Guðmundur maðurinn minn fest kaup á húsinu og framundan eru framkvæmdir við að færa það í upprunalegt horf.”
Hún horfir á mig íbyggin og bætir við. „Svo hef ég verið að teikna viðbyggingu við húsið sem ef til vill verður hótel þegar fram í sækir.“
Þá er bara að henda púddunum í skottið
Það þarf ákveðni og úthald til þess að reksturinn gangi upp og að mörgu er að hyggja og viðurkennir Dagný að hún sé oft hálf lúin í lok sumars og sverji þá af sér staðinn.
„En þegar vorar er ég aftur full tilhlökkunar að komast vestur á firði, í heimalandið mitt. Þá er bara að henda púddunum mínum aftur í skottið og aka af stað, syngjandi alla leið í fjörðinn og sæluna - með þær gaggandi undir.”
Þegar Dagný dvelur á Tálknafirði hefur hún aðsetur í Gamla bæ sem afi hennar og amma byggðu en bæjarstæðið er 200 ára gamalt og áður stór þar torfbær. Nú sefur Dagný þar á gamla baðstofuloftinu. Bærinn er ekki stór en dugar fyrir stórhuga konu og nokkrar púddur - en þær hafast þó við í fjósinu.
Cafe Dunhagi hefur fengið góða umsögn hjá ferðamönnum og fullt hús stiga hjá TripAdvisor auk stjörnu hjá Lonly planet. Það er augljóst þegar fylgst er með Dagnýju að störfum að þar vegur þungt persónuleg þjónusta og glaðværð vertsins sem á það jafnvel til að stríða gestum sínum góðlátlega en hún er hafsjór af fróðleik um svæðið og það kunna gestir að meta.
Að lokum býður Dagný mér upp á splunkunýjan þorskhnakka sem ég borða með góðri lyst en á sama tíma dettur inn tuttugu manna hópur af Íslendingum í lopaeysum, sem vilja allir kótilettur. „Elskurnar mínar,“ segir Dagný syngjandi og hverfur inn í eldhús.
Viðtal: Dagný Maggýjar
Nú standa yfir framkvæmdir á efri hæð Dunhaga og þá er tekið til hendinni á milli vakta í eldhúsinu
Á efri hæðinni var boðið upp á fótbolta á meðan á heimsmeistaramóti stóð
Fólkið og sögurnar prýða veggina og minna á liðnar kynslóðir.
Umhverfið er magnað á Tálknafirði.