Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Bella listakokkur eldar ofan í karlana
Bella í eldhúsinu í Toyota Reykjanesbæ.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
föstudaginn 25. desember 2020 kl. 07:53

Bella listakokkur eldar ofan í karlana

Hún er fædd og uppalin fyrir norðan, á Raufarhöfn, en flutti ásamt eiginmanni, Reyni Þorsteinssyni, í Garðinn fyrir átján árum með dæturnar tvær og líkar vel.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ísabella Björk Bjarkadóttir hefur enga formlega menntun á sviði eldamennsku heldur lærði á gamla mátann af móður sinni, með því að standa við hlið hennar þegar hún var að elda mat. Í dag sér Bella um að elda ofan í starfsmenn hjá Toyota Reykjanesbæ.

Finnst gaman að matreiða

„Ég er búin að vera í átta ár hjá Toyota en byrjaði að vinna hjá þeim í allt öðru árið 2006 þegar ég var að svara í símann og sækja bíla. Svo kom hrunið og þá missti ég vinnuna en var svo heppin stuttu seinna að komast í vinnu hjá Hjallatúni, leikskóla í Njarðvík, en þar var ég í eldhúsinu. Það var stór vinnustaður og ég eldaði ofan í eitthvað um hundrað manns, bæði börn og fullorðna. Allt eldað frá grunni, bakað brauð og ýmislegt. Ég byrjaði þar sem aðstoðarkona hjá vinkonu minni í eldhúsinu en fékk starfið hennar eftir eitt ár þegar hún hætti störfum. Ég hef alltaf haft áhuga á matargerð, alveg frá því að ég var lítil stelpa og stóð með mömmu minni við pottana í eldhúsinu, var að fylgjast með mömmu græja og gera. Þetta voru góðar stundir því þá gátum við einnig spjallað saman í leiðinni.

Þegar ég var átján ára fór ég á húsmæðraskólann á Hallormsstað, sem var æðislegt. Þar lærði ég allt mögulegt, mjög gaman. Ég elskaði að vera þarna fyrir austan og vildi helst vera þar í þrjú ár en þetta var hálfur vetur. Þarna var mikið brallað, einn strákur var í hópnum og hann varð kærasti einnar í nemendahópnum,“ segir Bella skælbrosandi við minninguna og bætir við:

„Eftir svona tvö, þrjú ár í Hjalla-túni höfðu þeir hjá Toyota samband við mig og buðu mér starf í eldhúsinu þeirra sem þá var nýlega opnað fyrir starfsmenn. Þeir buðu mér styttri vinnutíma og einfaldara starf, hér er ég aðeins að útbúa hádegismat handa þeim virka daga. Ég ákvað að taka starfinu og hef verið hér síðan og líkar mjög vel. Ég elda venjulegan íslenskan heimilismat ofan í starfsfólkið hér, fer svona milliveginn í matargerð svo flestir séu ánægðir,“ segir Bella.

Má ekki breyta jólamatseðli fjölskyldunnar

Þegar Bella er spurð út í jólahald heima hjá henni sjálfri þá kemur ýmislegt forvitnilegt fram en hún er jú fædd og uppalin fyrir norðan og eru því rjúpur oftast í matinn hjá hennar fólki á aðfangadag. Alltaf sami jólamaturinn sem að vísu hefur stundum verið erfitt að nálgast vegna rjúpnaveiðibanns.

„Heima hjá mér um jólin er alltaf sami matseðill og hefur verið frá því að ég var lítið barn en jólamatseðillinn hefur fylgt mér alveg inn í minn eigin búskap. Það þýðir ekkert að breyta en ég bauð fjölskyldunni minni upp á það eitt sinn og þau spurðu mig hvort ég væri ekki í lagi, hvort kerlingin væri eitthvað að tapa sér! Við höfum því haft þennan matseðil um jól en stundum hefur reynst erfitt að fá rjúpu vegna veiðibanns og einnig vegna þess að henni er að fækka. Það er hefð að maðurinn minn fari á rjúpnaveiðar fyrir norðan. Svo kemur hann heim með fenginn og lætur fuglana hanga í tíu daga, svo er hann settur í frysti. Einum degi áður en við borðum fuglinn er hann tekinn úr frysti og hamflettur, ekki fyrr. Við erum með rjúpur í aðalrétt á aðfangadag en erum aldrei með forrétt á aðfangadag. Ég steiki rjúpurnar á pönnu í smjöri, krydda með salti og pipar. Síðan set ég þær í pott með smá vatni yfir og sýð þær í rúma klukkustund til að fá soðið í bestu sósu í heimi. Svo borðum við brúnaðar kartöflur með rjúpunum, waldorf-salat, rauðkál og grænar baunir frá Ora. Malt og appelsín er jóladrykkurinn,“ segir hún og maður fær vatn í munninn af þessu matarspjalli sem er alls ekki búið því til að toppa matseðilinn á aðfangadag er eftirrétturinn sem móðir hennar sáluga var einnig alltaf með á borðum þetta  kvöld.

„Mamma gerði alltaf ananas sítrónufrómas og ég held hefðinni áfram. Ég er aldrei með forrétt því við borðum svo mikið af rjúpum og þessum eftirrétt sem allir elska.

„Já þennan eftirrétt elska allir heima hjá mér á aðfangadag, alveg ómissandi. Annars er aðfangadagskvöld ósköp hefðbundið og notalegt kvöld. Við hlustum á messuna í útvarpinu og viljum helst borða klukkan sex að kvöldi. Þegar kirkjuklukkurnar hringja jólin inn í útvarpinu þá höfum við nú boðið hverju öðru koss á kinn til að bjóða gleðileg jól.

Þegar við erum búin að borða þá fara allir saman inn í eldhús til að ganga frá, vaska upp og hjálpast að. Þá er farið inn í stofu aftur og pakkarnir teknir upp. Alltaf jafn hátíðleg stund. Við erum með konfekt, smákökur og fullt af mandarínum til að nasla í. Svo líður kvöldið. Vinsælustu jólagjafirnar heima hjá okkur eru bækur, þær eru efst á óskalistanum. Svo fellur allt í ró og heimilisfólkið fer að glugga í bækurnar sínar. Reynir maðurinn minn hverfur næstu daga við bókalestur inni í sólstofu þar sem hann kveikir upp í kamínunni og hefur það gott, yndislega notalegt,“ segir hún.

Kaupir jólagjafir í  heimabyggð

„Þegar búið er að opna alla pakkana á aðfangadagskvöld, sýð ég hangikjöt á beini en það kaupi ég alltaf frá Fjallalambi á Kópaskeri. Það er svo gott frá þeim. Ég sýð kjötið í þrjá tíma og læt það svo standa yfir nóttina en þetta er í matinn á jóladag. Með köldu hangikjötinu hef ég heitar kartöflur og uppstúf, allt þetta hefðbundna en býð einnig upp á rauðrófu/eplasalat sem er í þeyttum rjóma. Þetta salat verður að vera með. Annars er jólaundirbúningurinn líka alltaf skemmtilegur, dagarnir fyrir jól. Ég kaupi allar jólagjafir hér suðurfrá, helst ekki í Reykjavík. Ég vil styðja við verslun hér á svæðinu og fæ fullt af fallegum gjöfum í Keflavík. Þá losnar maður líka við allar biðraðirnar í Reykjavík en hér gengur allt greiðlegar fyrir sig. Rólegra, ekkert stress og læti. Miklu skemmtilegra að versla heima. Ég pakka inn jólagjöfunum á Þorláksmessu og hlusta á jólakveðjurnar á RÚV í leiðinni. Þetta kvöld er ég með heitan brauðrétt handa fólkinu mínu en ég borða ekki skötu, hef aldrei gert og er ekki alin upp við það fyrir norðan,“ segir Bella sposk á svip.

– En hvernig er að halda upp á jól á þessu stórmerkilega ári þegar covid stýrir för?

Bella segist ætla norður að heimsækja uppkomna dóttur sína ef það verður hægt.

„Við stefnum norður að heimsækja eldri dóttur okkar og fjölskyldu hennar um jólin ef Guð lofar og covid leyfir. Það á eftir að koma í ljós en þangað langar okkur í heimsókn.“

----

Ananas/sítrónufrómas

5 egg

180 gr sykur

- þeytt saman

2 litlar dósir af ananaskurli

10 matarlímsblöð í pott með safanum úr ananasdósunum

- þetta hitað varlega saman, ekki of heitt og sett síðast í alla blönduna

½ ltr rjómi þeyttur og settur saman við eggja/sykurblönduna

1 sítróna, börkurinn rifinn út í blönduna

Öllu blandað saman og hellt í fallega glerskál og sett í kæliskáp í einn sólarhring

- þá skreytt með þeyttum rjóma úr rjómasprautu, lítil rjómablóm og smá ananas til skrauts.

Borið fram beint úr kæli. 

Texti og myndir: Marta Eiríksdóttir

Ísabella Björk Bjarkadóttir gefur starfsmönnum Toyota í Reykjanesbæ að borða. Hér er hún með nokkrum þeirra.