Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Belgískur skiptinemi í Keflavík
Fimmtudagur 26. júní 2003 kl. 09:37

Belgískur skiptinemi í Keflavík

- hefur búið hér í 10 mánuði og fékk 10 í íslensku og stærðfræði.

Laure Courbois er 19 ára gömul belgísk stúlka sem hefur dvalið hér á Íslandi á vegum AFS Alþjóðleg fræðsla og samskipti eins og samtökin eru kölluð á íslensku. Laure býr á heimili Guðrúnar Hákonardóttur og Stefáns Jónssonar í Keflavík og hefur búið þar síðustu 10 mánuði. Laure er ánægð með dvölina á Íslandi.

Þrátt fyrir að hafa verið einungis 10 mánuði á Íslandi talar Laure ágæta íslensku. „Ég skil ekki alveg allt en mér hefur gengið ágætlega að læra íslenskuna,“ segir Laure en hún fékk 10 í íslensku og stærðfræði í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. F.S. tekur vel á móti skiptinemum og Elísabet íslenskukennari og Elín námsráðgjafi eru þeim innann handa.Laure segist hafa eignast góða vini hér á Íslandi, en henni finnst íslenskir jafnaldrar sínir stundum dálítið kærulausir og þá sérstaklega hvað varðar námið. „Mér finnst skrýtið að sjá þegar krakkarnir eru að skrópa í tímum í skólanum. Þetta kæmi ekki til greina hjá krökkum í Belgíu.“ Laure segir einnig að í Belgíu séu krakkar á hennar aldri ekki úti á kvöldin eins og hér. "Maður er bara heima hjá sér eftir að maður kemur heim úr skólanum, en hér á Íslandi eru krakkarnir úti langt fram eftir kvöldi. Það var dálítið skrýtið að kynnast þessu hér."

Laure segist hvetja ungmenni til að fara erlendis á vegum AFS því það víkki sjóndeildarhringinn. „Ég er rosalega ánægð með dvölina og ég hefði alls ekki viljað missa af þessu tækifæri,“ segir Laure og hún á eftir að sakna Íslands og fjölskyldunnar. „Ég stefni að því að koma aftur eftir 2 ár þegar Hákon bróðir minn fermist. Þegar ég kem heim til Belgíu fer ég í sumarfrí til Ítalíu og eftir það byrjar skólinn hjá mér en ég ætla að fara að læra arkitektúr.“

Guðrún segir að Laure hafi haft þær væntingar þegar hún kom til Íslands að um jólin yrði dúnmjúk hvít mjöll yfir öllu. „Sú ósk rættist ekki, en hún hefur kynnst öðrum hlutum og er bara ánægð með dvölina.“

Rakel dóttir þeirra hjóna hefur verið á vegum AFS í Minnesota í Bandaríkjunum í 11 mánuði og kemur hún heim í júlí. Guðrún segir að þeim hafi fundist það spennandi að taka ungling á vegum AFS inn á heimilið í stað dóttur þeirra. „Þegar maður sendir ungling út sem skiptinemi þá er ekkert skilyrði að taka á móti öðrum ungling. En foreldrar unglinga sem fara út sem skiptinemar vilja oft gefa öðrum ungling tækifæri því AFS gengur út á fólk bjóði erlendum unglingum inná heimilið,“ segir Guðrún en Laure er orðin hluti af fjölskyldunni. „Við borguðum fyrir Rakel dvölina í Bandaríkjunum en við þurfum ekki að borga neitt til að fá Laure til okkar. Ég er nefnilega oft spurð að því hvað það kosti að fá ungling á vegum AFS inn á sitt heimili, en það kostar ekki neitt fyrir utan venjulegan kostnað af heimilismanni. Unglingurinn gengur bara inn í heimilið og verður hluti af fjölskyldunni, en auk þess gengur hann inn í skyldur annarra barna á heimilinu og ef þau gera ákveðinn verk á heimilinu og fá vasapeninga fyrir það, þá lætur maður skiptinemann sitja við sama borð.“


Þau hvetja fólk til að íhuga möguleikana á því að taka skiptinema og segja að það sé mjög þroskandi og víkki í sjóndeildarhringinn. "Maður fer að horfa á sjálfan sig í nýju ljósi og auðvitað kynnist maður menningu og hugsunarhætti manneskju frá öðru landi. Við höfum líka mjög gaman af því að sýna Laure landið okkar. Það er líka svo gaman af þessum smáatriðum í umhverfinu sem maður veitir litla athygli en er nýtt hjá þeim. Laure finnst t.d. svo gaman að búa á stað þar sem hún sér sjóinn út um herbergisgluggan sinn." Guðrún og Stefán eru sammála um að hafa skiptinema sé minna mál en þau hafi haldið. "Maður heldur sínu striki því maður er ekki að fá gest í 10 mánuði heldur nýjan fjölskyldumeðlim."

Þegar unglingur á vegum AFS kemur inn á heimili fólks þá fær fjölskyldan stuðning frá samtökunum hér á Íslandi. Bæði fær skiptineminn stuðnigaðila í skólanum , ungling sem sjálfur hefur verið skiptinemi. Svo er aðili her i bænum og svo hefur maður alltaf greiðan aðgang að Rósu á skrifstofu AFS. Guðrún segir að það sé gott að vita af slíkum stuðningi. "Það geta náttúrulega alltaf komið upp einhver vandamál og þá er gott að geta leitað til stuðningsaðilans hjá AFS."

Guðrún og Stefán bjóða þeim fjölskyldum sem hafa áhuga á að taka að sér skiptinema og vilja spyrja nánar um það að hringja í þau í síma 421-2956 eða 893-1450.

VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Fjölskyldan í garðinum, f.v. Stefán Jónsson, Laure Courbois, Hákon Stefánsson, Guðrún Hákonardóttir ásamt heimiliskettinum Doppu.

Staðreyndir um AFS
AFS eru alþjóðleg sjálfboðaliða- og fræðslusamtök sem hafa það að markmiði að efla fræðslu og samskipti á milli þjóða heims. Til að ná settum markmiðum standa samtökin fyrir nemendaskiptum á milli landa. Aðildarlönd AFS eru nú 54. Árlega fara um 10.000 manns um heim allan til dvalar á vegum samtakanna í lengri eða skemmri tíma. Samtökin eru óháð stjórnmálaflokkum, trúfélögum, hagsmunasamtökum og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Þúsundir sjálfboðaliða um allan heim skapa grundvöll AFS enda eru samtökin upphaflega stofnuð af sjálfboðaliðum.


AFS á Íslandi var stofnað árið 1957, en þá fóru fyrstu skiptinemarnir frá Íslandi til Bandaríkjanna. Síðan þá hafa um 2.600 ungmenni farið til dvalar erlendis á vegum félagsins og um 900 erlend ungmenni komið hingað til lands. Ætla má að fjöldi foreldra, fósturforeldra og systkina sem tengjast þessum nemum í gegnum tíðina sé á bilinu 15-20 þúsund. Á hverju ári fara 110-120 íslensk ungmenni til dvalar erlendis á vegum AFS og hingað koma 35-40 erlendir nemar í ársdvöl. Þau eru á aldrinum 15-18 ára og búa hjá fjölskyldum og ganga í framhaldskóla. Samtökin heita á íslensku Alþjóðleg fræðsla og samskipti.

Menntun á vegum AFS
Öll ungmenni sem halda erlendis með AFS ganga í skóla og hljóta sambærilega menntun og jafnaldrar þeirra í viðkomandi landi. Hin óformlega menntun, þegar einstaklingur og fjölskylda komast í nána snertingu við annan menningarheim er þó ekki síður mikilvæg.

Lærdómur í gegnum slíka reynslu stuðlar að:
-auknum þroska og breytingu á persónulegum gildum
-aukinni færni í að eiga samskipti við fólk sem er af öðru bergi brotið
-aukinni þekkingu og skilningi á eigin menningu og ólíkum menningarheimum


Leitað að íslenskum fjölskyldum
AFS á Íslandi eru nú að leita að íslenskum fósturfjölskyldum í 5-10 mánuði fyrir 41 erlenda skiptinema á aldrinum 15-18 ára sem væntanlegir eru hingað um miðjan ágúst n.k.

Ungmennin koma frá 14 löndum í fimm heimsálfum: Argentínu (1), Austurríki (5), Bandaríkjunum (5), Belgíu (5), Brasilíu (1), Ekvador (2), Finnlandi (1), Ítalíu (7), Kína (2), Noregi (1), Spáni (1), Sviss (2), Taílandi (4) og Þýskalandi (5).

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu samtakanna AFS.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024