Bekkjarfélagarnir læra líka táknmál
Andri Fannar Ágústsson er að fara í 2. bekk nú í haust. Hann er heyrnarlaus og notast við táknmál til að tjá sig. Þær Margrét Gígja Þórðardóttir og Laila Margrét Arnþórsdóttir standa um þessar mundir fyrir svokallaðri Táknmálseyju þar sem jafnaldrar Andra úr Holtaskóla læra táknmál á skemmtilegan máta. „Jóhann Geirdal skólastjóri Holtaskóla bað okkur að koma hingað vegna þess að hér er heyrnarlaus strákur sem er að fara í 2. bekk. Við vildum byggja betra félagslegt umhverfi fyrir hann og um leið kynna táknmál fyrir börnunum,“ segir Margrét Gígja.
Hugmyndavinnan í verkefninu er að gefa krökkunum orðaforða sem byggist upp eins og samfélag en byrjað er að föndra eyju og krakkarnir gera alls kyns hluti á eyjuna og læra ný orð eftir því sem þau byggja fleiri hluti í kringum eyjuna. Þau læra t.d um sjóinn og fara svo út í fjöru að tína steina og skeljar og annað. „Þannig að þau eru virk bæði innan og utan skólastofunnar. Við verðum líka að fara út með þau því þolinmæðin er stundum af skornum skammti, sérstaklega þegar veðrið er gott,“ bætir Margrét Gígja við.
Þær stöllur segja að inn á milli séu börn sem séu orðin mjög góð og orðaforðinn sé ótrúlega góður hjá sumum. Áhuginn sé þó mismunandi eins og gengur og gerist en flestir eru farnir að geta bjargað sér. „Sumir eru feimnir og eru ekkert að sýna að þeir taki við táknunum. Það hefur verið þannig stundum að þegar foreldrarnir koma að sækja börnin þá byrja þau að tjá sig með táknmáli við þau, það segir manni að orðaforðinn sé að vaxa og kannski eru túlkar framtíðarinnar hér í þessum hóp,“ en alls eru um 20 börn sem sækja námskeiðið.
Börnin eru mjög glöð í kennslunni og eru jafnan fúllynd þegar kennslustund er lokið enda mikið í gangi og fjörið stanslaust. Þegar blaðamaður leit við hjá krökkunum var Tinna táknmálsálfur sem hefur verið í Stundinni okkar með krökkunum og talaði við þau á táknmáli. Hún fangaði athygli þeirra og flest þeirra gátu svarað spurningum hennar að einhverju leyti og tjáð sig á táknmáli.
Hugmyndin er svo að halda starfinu áfram einu sinni í viku í skólanum í vetur. Seinna meir munu þau svo vonandi læra táknmál enn frekar en það er kennt í nokkrum framhaldsskólum og einnig sem val í eldri bekkjum í einhverjum grunnskólum.
„Það er t.d. biðlisti í Kvennaskólanum eftir því að komast í táknmál því mætti segja að þetta sé ansi vinsælt og nokkurskonar trend í gangi,“ segir Laila.
Andri hefur haft gífurlega gaman af námskeiðinu og nýtur sín til fulls. „Það er rosalega mikilvægt í svona námskeiðum að hann er í sjálfu sér í aðalhlutverki, hann er í raun að gefa af sinni menningu og maður sér að hann er sterkur hér inni. Hann kann þetta og skilur og er jafnvel að kenna hinum. Hér fær hann flott hlutverk og er í fremstu röð í stað þess að vera stundum til baka í skólanum, sem er gríðarlega mikilvægt,“ segir Laila að lokum.
Myndir/EJS: Efst er hressi hópurinn. Á myndinni fyrir miðju má sjá Andra Fannar á miðri mynd með gleraugun. Neðst bregður Tinna tannálfur á leik með krökkunum.