Batteríin vel hlaðin fyrir veturinn í góðu sumarveðri
Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, segist fara inn í veturinn með vel hlaðin batterí eftir gott sumarveður þar sem hann kom ýmsu í framkvæmd. Þá var farið víða og meðal annars á heimatónleika hjá Stebba Jak í Mývatnssveitinni. Í ár verður ekkert slegið af Í holtunum heima og munu Breiðbandið, Una Torfa, Björn Jörundur og Hjálmar koma fram á tónleikunum sem má segja að séu allt að því í bakgarði þingmannsins.
Hvernig varðir þú sumarfríinu?
Við fjölskyldan vörðum sumarfríinu innanlands í sumar og fórum víða, m.a. til Akureyrar.
Við ferðuðumst einnig um Suðurland og dvöldum í Borgarfirðinum. Við hjónin fórum saman í tvær veiðiferðir með góðum vinum og svo heimsóttum við dóttur okkar og tengdason sem nýverið fluttust búferlum til Vestmannaeyja. Eins og gengur eru ýmis áhugaverð erindi sem fylgja þingmannsstarfinu yfir sumarið og skipa heimsóknir, viðburðir og fundir um kjördæmið þar stóran sess. 50 ára goslokahátíðin í Vestmannaeyjum var virkilega eftirminnileg og svo gosið við Litla-Hrút að sjálfsögðu.
Hvað stóð upp úr?
Veðurblíðan í júlí og ágúst gerði það að verkum að ég kom mörgu í verk heimafyrir. Við réðumst loksins í það að byggja pall við húsið okkar í fyrra og eftir þann atgang þurfti að laga lóðina og klára ýmislegt sem út af stóð. Það má segja að veðrið hafi staðið upp úr þetta sumarið og því eru batteríin vel hlaðin fyrir veturinn.
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
Í ferð okkar til Akureyrar í sumar heimsóttum við listasafn Akureyrar og skoðuðum sýningu Ragnars Kjartanssonar, Gestirnir/The Visitors. Verkið er mjög áhrifaríkt og eftirminnilegt. Ég mæli eindregið með því að fólk láti verkið ekki framhjá sér fara. Einnig heimsóttum við Safnasafnið á Svalbarðseyri og fórum á heimatónleika í Mývatnssveitinni í bílskúrnum hjá Stefáni Jakobssyni. Stebbi Jak fór þar á kostum og óhætt að segja að sá viðburður hafi komið skemmtilega á óvart.
Áttu þér uppáhaldsstað til að heimsækja innanlands?
Það er erfitt að nefna einn uppáhaldsstað á Íslandi. Landið er svo fjölbreytt og magnað í alla staði. Náttúrufegurðin hér á Reykjanesi er gott dæmi um magnaðan stað sem nú hefur fengið meiri athygli í kjölfarið á þremur eldgosum með stuttu millibili. Ef ég þarf að velja held ég þó að Bláa lónið hafi vinninginn, það er ekkert sem toppar þann magnaða stað.
Hvað ætlar þú að gera í vetur?
Starfið tekur stóran hluta af mínum tíma en þess utan ætla ég að nýta tímann vel með fjölskyldunni.
Hvernig finnst þér Ljósanótt?
Mér finnst Ljósanótt frábær og hef alltaf tekið virkan þátt í hátíðinni í gegnum tíðina. Í fyrra héldum við í fyrsta skipti útitónleikana Í holtunum heima sem heppnuðust frábærlega og fékk viðburðurinn mjög góðar viðtökur. Í ár verður ekkert slegið af og munu Breiðbandið, Una Torfa, Björn Jörundur og Hjálmar koma fram á tónleikunum. Það er skemmtilegt að halda viðburð sem þennan með frábærum hópi nágranna sem allir leggja sitt af mörkum. Ljósanótt er í mínum huga menningar- og fjölskylduhátíð sem er í sífelldri þróun án þess að glata sínum séreinkennum. Mér finnst bragurinn í kringum bæjar- og menningarhátíðir á Íslandi lýsandi dæmi um sköpunarkraftinn og dugnaðinn í landanum. Þúsundir Íslendinga leggja mikið á sig til þess að gera hátíðarnar ógleymanlegar, bæði fyrir heimafólk og gesti. Það er samvinnan og samveran sem gefur lífinu gildi.
Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?
Það verður erfitt að velja úr viðburðum enda dagskráin aldrei verið betri. Það sem kemur upp í hugann er Jazzbandið Þríó sem mun spila í Bókasafni Reykjanesbæjar. Ég er að vonast eftir því að ná miða á tónleika GÓSS í Kirkjuvogskirkju í Höfnum og svo fer ég að sjálfsögðu í árgangagönguna. Hátíðardagskráin á laugardagskvöldið markar alltaf hápunkt Ljósanætur og þá fer öll fjölskyldan saman niður á hátíðarsvæði til þess að njóta tónlistar og horfa á flugeldasýninguna.
Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?
Ég á mér margar góðar minningar frá Ljósanótt í gegnum tíðina. Ég man til dæmis eftir því þegar Ljósanæturlagið Velkomin á Ljósanótt kom út á sínum tíma. Mig minnir að það hafi verið árið 2002. Lag og text er eftir heimamanninn Ásmund Örn Valgeirsson og flutti Einar Ágúst lagið. Lagið er í mínum huga hið eina sanna Ljósanæturlag.
Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Sú hefð hefur skapast á Ljósanótt að ég býð vinum og fjölskyldu í humarsúpu. Stór þáttur Ljósanætur í mínum huga er samveran og þá má góður matur ekki vera langt undan.