Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Barnahátíð í Reykjanesbæ á fullu skriði
Sunnudagur 12. maí 2013 kl. 11:46

Barnahátíð í Reykjanesbæ á fullu skriði

Í dag, sunnudag, heldur fjörið áfram en þá fer megin þungi dagskrárinnar fram á svæðinu í kringum Duushúsin

Mikill fjöldi sótti Barnahátíð í Reykjanesbæ í gær, laugardag.  Sannkölluð hátíðarstemning ríkti í Víkingaheimum, jafnt innan dyra sem utan, og svæðið bókstaflega iðaði af lífi með góðum fyrirheitum um sumarið framundan.

Landnámsdýrin heilsuðu í Landnámsdýragarðinum, hestar voru leiddir undir börnum og reykur liðaðist úr pylsugrillinu og sykurpúðabálkesti skátanna. Í tjaldi voru markaðsmenn framtíðarinnar í essinu sínu og seldu gömlu leikföngin sín. Það er nokkuð víst að þar gerðu margir sannkölluð kjarakaup og allir fóru sáttir frá borði. Lifandi tónlist og litskrúðug andlit settu einnig svip sinn á tjaldið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Víkingar  í fullum herklæðum léku listir sínar á útisvæði og ungviðið fékk að spreyta sig í meðferð sverða og skjalda með tilheyrandi vopnaskaki og herópum.

Inni í Víkingaheimum var sömu sögu að segja. Fjölskyldur áttu saman notalegar stund við að hanna víkingaklæði á uppáhalds bangsana sína og var unun að fylgjast með sköpunarkraftinum sem þar fékk útrás. Sirkus Ísland lék listir sínar við andköf áhorfenda auk þess sem börnin skemmtu sér við að klæða sig upp í víkingafatnað, skoða sýningar hússins, hlýða á tónlist og horfa á dans.

Í dag, sunnudag, heldur fjörið áfram en þá fer megin þungi dagskrárinnar fram á svæðinu í kringum Duushúsin, menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar. Þar er Listahátíð barna í fullum gangi og skyldi enginn láta einstaka sýningu leikskólanna framhjá sér fara, en um hana verður einmitt fjallað í Landanum á sunnudagskvöld. Skessan í hellinum er í hátíðarskapi og býður gestum upp á lummur. Með henni verður vinkona hennar Fjóla tröllastelpa sem gefur börnunum Skessublöðrur og þá býðst börnunum að hjálpa til við að prjóna trefil á Skessuna en henni varð nokkuð kalt í vetur og stendur til að bæta úr því.

Á Keflavíkurtúni geta börnin skemmt sér í leikjum, leiktækjum og hoppuköstulum og svo spáir víst karamelluregni.  Í Svarta pakkhúsinu, sem er alveg í næsta nágrenni, er börnum boðið í flotta hljóðfærasmiðju, þar sem þau geta búið til hljóðfæri sem fá allar skessur, stórar og smáar, til að stíga trylltan dans.

Ljósmyndarinn okkar ungi, Ólafur Andri Magnússon tók þessar myndir í gær.

Nánari upplýsingar um þetta og margt fleira er að finna á vefsíðunni barnahatid.is

-

-

-