Barnahátíð hefst á morgun í Reykjanesbæ
Barnahátíð í Reykjanesbæ verður haldin í 5. sinn 21. – 25. apríl n.k. með skemmtilegri og skapandi dagskrá fyrir alla fjölskylduna í tilefni vorkomu.
Hátíðin verður sett formlega miðvikudaginn 21. apríl með setningu listahátíðar barna í Duushúsum þar sem bréfdúfum verður sleppt með boð á hátíðina til allra barna á landinu.
Að hátíðinni koma fjöldi tómstundafélaga, íþróttafélög, leik- og grunnskólar og menningarhópar og er frítt á flesta viðburði fyrir börn í fylgd með fullorðnum. Veitingahús og fyrirtæki verða með ýmis tilboð í tilefni barnahátíðarinnar og ýmsar veitingar í boði þar sem dagskráatriði fara fram.
Fimmtudaginn 22. apríl verður opinn dagur á Ásbrú þar sem boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá auk viðburða á barnahátíð. Má þar helst nefna Risakarnival í nýju kvikmyndaveri Atlantic Studios þar sem rifjuð verðru upp skemmtileg karnivalstemning sem flestir heimamenn þekkja frá veru varnarliðsins en að auki verður boðið upp á opna hafnarboltaæfingu, þyrluflug, listasmiðju og margt fleira.
Meðal viðburða á barnahátíð má nefna listahátíð barna, listasmiðjur, ljósmyndasýningu, hreystikeppni, dorgkeppni, hlaupakeppni, fjölskylduratleik, hestahátíð og sjóræningjaleik í Vatnaveröld þar sem þekktur sjóræningi lýtur við og kálfa, lömb og kiðlinga í Víkingaheimum sem verða á nýrri dýrasýningu þar í sumar. Í Víkingaheimum verður sprell og fjör á fimmtudag og laugardag þar sem hægt verður að taka þátt í víkingaleik og taka þátt í lifandi barnaskemmtun um borð í víkingaskipinu Íslendingi. Svabbi sjóari fræðir börnin um íslensk vatnaskrímsli en á bryggjunni neðan Duushúsa verður hægt að skoða hin ýmsu sjávardýr í tilefni af þema listahátíðar sem í ár er hafið.
Flestir viðburðir eru heimagerðir og má þar nefna sýningu grunnskólabarna í Stapa þar sem sýnt verður brot af því besta frá árshátíðum skólanna. Einnig munu börn í leik- og grunnskólum hverfisins taka þátt í að vígja ný fuglahús við tjarnirnar í Innri Njarðvík en gerð þeirra er framhald af íbúafundum bæjarstjóra sem haldnir voru með grunnskólanemum sl. haust en þar var óskað eftir hugmyndum að útfærslum að fuglahúsum.
Allir sem taka þátt í skipulögðum leikjum á barnahátíðinni fá veglegan þátttökupening. Íbúar eru hvattir til þess að kynna sér dagskrá hátíðairnnar á vefnum barnahatid.is en þar eru viðburðir merktir inn á kort og hægt að hlaða dagskránni í símann.