Barnabarnið mitt kom fyrst í heiminn!
Víkurfréttir hafa það fyrir sið að segja frá fyrsta barni ársins sem búsett er á Suðurnesjum. Í síðasta tölublaði Víkurfrétta var greint frá fyrsta barni ársins sem fæddist á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, HSS. Vinsamleg ábending var svo send blaðinu frá ömmu sem sá viðtalið við nýbakaða foreldra í blaðinu í síðustu viku en hún benti góðfúslega á að fyrsta fædda barn Suðurnesja hefði verið barnabarnið hennar. Barnið fæddist í Reykjavík og þess vegna fórst fyrir að tilkynna barn þetta til blaðsins.
Stúlkubarnið fæddist aðfararnótt 2. janúar árið 2019 klukkan 03:05 á Landspítalanum. Blaðamaður snaraði sér í að hafa samband við foreldra stúlkubarnsins sem eru þau Magnea Guðríður Frandsen, læknanemi og Bjarki Þór Wium Sveinsson, trésmíðanemi, búsett í Vogum við Vatnsleysuströnd. Þetta er fyrsta barn þeirra Magneu og Bjarka.
Litla daman lét bíða eftir sér
„Hún átti nú að fæðast 17. desember 2018 hér suðurfrá á HSS en lét heldur betur bíða eftir sér. Ég var búin að vera að fara í mæðraskoðun hjá HSS og það leit allt vel út en þegar ég fór svona langt framyfir settan fæðingardag þá var ákveðið að senda okkur inneftir til Reykjavíkur. Við vorum í sambandi við ljósmæðurnar á HSS og það var ákveðið að við færum í gangsetningu á landspítalanum á nýársmorgun þar sem ég var þá komin yfir 42 vikur. Við keyrðum svo til Reykjavíkur í rólegheitunum og gangsetningin gekk fljótt þar sem ég var þegar komin með smá útvíkkun. Þetta endaði samt þannig að sú litla var tekin með sogklukku því það voru komin fram streitumerki hjá henni og púlsinn lækkaði stöðugt en hún var í sambandi við monitor allan tímann,“ segir Magnea.
Bjarki og Magnea segjast bæði vera alsæl og þakklát fyrir hvað allt gekk vel. Bjarka fannst merkilegt að fylgjast með á fæðingarstofunni innfrá en Magnea hafði farið í meðgöngujóga og notaði öndun til þess að halda sér rólegri.
(Greinin heldur áfram neðan við myndina)
(Greinin heldur áfram neðan við myndina)
Fagmannleg vinnubrögð heilbrigðisstarfsfólks
„Stella frænka mín var ljósmóðir þarna og okkur fannst við mjög heppin með það. Annars var hún Magnea mjög róleg. Það var mjög athyglisvert að fylgjast með henni anda svona rólega í gegnum fæðinguna. Ég var stundum að fara á taugum og var búinn að ímynda mér þetta eins og í bíómyndunum, öskur og læti til að koma barninu út en þessi fæðing var ekki þannig,“ segir Bjarki og hlær.
Já feður geta stundum verið stressaðir þegar þeir fylgjast með fæðingu og ættu kannski að læra slakandi fæðingaröndun einnig.
„Ég var búin að lesa mjög góða bók eftir ljósmóðurina Ina May Gaskin sem nefnist Ina May´s Guide to Childbirth en viðhorf hennar er meira svona andleg nálgun við fæðingu, þar sem mælt er með hugleiðslu, slökun og öndunaræfingar fyrir fæðingu. Ég fór einnig í meðgöngujóga sem er mjög góður undirbúningur. Andrúmsloftið í fæðingunni á Landsspítalanum var mjög notalegt og rólegt. Læknateymið var mjög fagmannlegt. Þarna var einnig teymi frá vökudeild. Allt þetta fólk stóð tilbúið ef eitthvað færi úrskeiðis. Það gaf okkur öryggistilfinningu,“ segir Magnea.
„Læknaliðið sem var viðstatt fæðinguna fylgdist vel með og þau töluðu svona læknamál sem ég skildi ekki orð af. Það var fullt af fólki þarna til staðar. Þau töluðu mjög lágt, voru mjög tillitssöm og svo var jógatónlist þarna,“ segir Bjarki greinilega uppnuminn og glaður.
Þau segjast vera alsæl og alveg í skýjunum með fallegasta barn í heimi. Auðvitað. Þau vilja skíra litlu stelpuna og bjóða fjölskyldunni til veislu en það verður ekki alveg strax, fyrst er að jafna sig og venjast nýju mikilvægu hlutverki.