Barna og ungmennahátíð í Reykjanesbæ - BAUN
Fimmtudaginn 6. maí hefst árleg barna- og ungmennahátíð í Reykjanesbæ. Hátíðin hefur til þessa gengið undir nafninu Listahátíð barna og Barnahátíð en nú hefur markhópurinn verið útvíkkaður í ungmenni einnig. Þannig varð til nafnið BAUN sem er í raun skammstöfun fyrir barn annars vegar og ungmenni hins vegar. Þá hefur baun einnig táknræna merkingu þar sem baunir eru auðvitað fræ sem með góðri næringu og atlæti blómstra og breiða úr sér. Þannig er barna- og ungmennahátíð frjósamur jarðvegur fyrir börnin okkar og gefur þeim tækifæri til að rækta hæfileika sína og blómstra.
BAUNabréfið
Nú í vikunni verður öllum leikskólabörnum og öllum grunnskólabörnum upp í 7.bekk afhent sérstakt BAUNabréf. Tilgangur bréfsins er að hvetja börn og fjölskyldur til að fara á kreik og taka þátt í ýmsum skemmtilegum verkefnum og svara spurningum eða safna stimplum í bréfið sitt. Þegar ákveðinn fjöldi verkefna hefur verið leystur er hægt að skila inn lausnasíðu úr BAUNabréfinu og þá eiga börnin möguleika á að vera dregin úr potti og vinna til veglegra verðlauna. BAUNabréfið er viðbragð við gildandi samkomutakmörkunum en ekki var hægt að blása til sérstaks fjölskyldudags af þeim sökum. Með BAUNabréfinu getur fjölskyldan skemmt sér saman á eigin vegum en jafnframt verið þátttakandi í skemmtilegum leik.
Fjölbreytt dagskrá
Margt skemmtilegt er á dagskrá BAUNar. Má þar nefna Listahátíð barna í Duus Safnahúsum þar sem gefur að líta listsköpun barna frá leikskóla og upp í framhaldsskóla. Hæfileikahátíð grunnskólanna fer fram í Stapa þar sem úrvalsatriði frá árshátíðum grunnskólanna eru sýnd og í ár verður þeim streymt samtímis í alla skóla bæjarins. Sérstakt Skessuskokk fer fram á fimm stöðum í bænum þar sem hlaupið er á milli Skessuspora, ný þrautabraut í Njarðvíkurskógum verður vígð og boðið upp á tímatöku í brautinni og sömuleiðis verður glæný fjallahjólabraut á Ásbrú vígð þar sem Hjólaleikfélagið mun kynna og aðstoða unga hjólreiðamenn í brautinni. Þá munu Fjóla tröllstelpa og Grýla baka í beinni og VísindaVilli leiðbeina með tilraunir líka í beinni. Dýrasýning með hljóði og mynd verður í Bókasafninu og þar verður einnig hægt að lesa fyrir hund, boðið verður upp á fornleifauppgröft í Duus Safnahúsum og nýja rennibrautin í Sundmiðstöðinni verður formlega vígð. Fjölbreytt dagskrá verður fyrir ungmenni í Fjörheimum m.a. kökuskreytingakeppni, hjólabrettakennsla og málað á hjólabretti og margt fleira. Þá verða ungmenni með innslög í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta á Hringbraut og vf.is þar sem spennandi verður að fylgjast með. Öll dagskrá verður birt á vef Reykjanesbæjar og á facebooksíðunni Baun, barna- og ungmennahátíð í Reykjanesbæ.
Allir með!
Við hvetjum fjölskyldur til að taka virkan þátt í BAUNinni 2021, halda af stað í ævintýraleiðangur með BAUNabréfið að vopni og eiga saman frábærar fjölskyldustundir. Til mikils er að vinna að fylla út BAUNabréfið en heppnir þátttakendur fá í verðlaun trampolín og hlaupahjól auk bíómiða með poppi og drykk.
Nánari upplýsingar um hvern dagskrárlið verður að finna á vefsíðu Reykjanesbæjar og á facebooksíðu BAUNar eins og áður segir.
Gleðilega BAUN og góða skemmtun!