Bara lítill strákur frá Grindavík sem felldi ríkisstjórn
Óhætt er að líkja Bergi Ingólfssyni við dansarann Billy Elliott. Strákur sem pukrast með ástríðu sína af ótta við viðbrögð nærsamfélagsins. Bergur æfði línur sínar fyrir inntökupróf í Leiklistarskólann í hjöllum í jaðri Grindavíkur þar sem hann ól manninn. Síðar átti hann eftir að leikstýra söngleiknum um Billy í Borgarleikhúsinu sem nú er hans annað heimili.
Bergur er fyrsti atvinnuleikarinn úr Grindavík og hefur hann átt farsælan feril sem leikari og leikstjóri í yfir aldarfjórðung. Bergur tók að sér sitt stærsta hlutverk til þessa árið 2017. Það var utan leiklistarinnar og vakti heimsathygli. Hann ásamt fjölskyldu sinni átti þá stóran þátt í að fella ríkisstjórn og hrinda af stað byltingu undir formerkjum höfum hátt. „Andlega og líkamlega var ekkert eftir af forðanum. Það sem fólk kallar að brenna út var líklegast staðan hjá mér. Samt hafði ég bankað upp á á geðdeild, fengið lyf og samtöl og reynt að vinna úr þessu öllu saman. Ég hef breytt um lífsstíl og er allur að koma til,“ segir Bergur í einlægu viðtali í hlaðvarpinu Góðar sögur sem Markaðsstofa Reykjaness og Heklan standa fyrir.
Leikarar detta af himnum ofan
Leikhúsið hefur átt hug Bergs allan meira og minna síðan hann varð atvinnuleikari fyrir 25 árum. Þó ættu flestir landsmenn að kannast við kauða úr sjónvarpi eða bíómyndum, já eða teiknimyndum þar sem hann er vinsæll í talsetningar.
Sem barn var Bergur viljugur til þess að skemmta sínum nánustu en þó óraði hann ekki fyrir því að hann gæti mögulega orðið leikari. Það virtist ekki gerlegt fyrir Grindvíking.
„Síðan sagði einhver við mig: „Þú ættir nú að fara í leiklistarskólann.“ Ég hef verið svona tíu ára, skóli nei, er þetta ekki bara fólk sem dettur af himnum,“ segir Bergur og hlær. Í leiklistinni fann hann þó síðar stóðið sitt. Í Fjölbrautaskóla Suðurnesja var Bergur virkur í leikfélaginu Vox Arena og tók þátt í nokkrum uppfærslum. Þar segist hann hafa fengið frábæran grunn fyrir Leiklistarskólann. Hann fiktaði einnig við tónlist og var meðal annars valinn söngvari Suðurnesja árið 1989, þá söngvari í hljómsveit sem hét Móðins.
„Auðvitað vill maður njóta sammælis og fá kredit fyrir sín verk, maður er bara mannlegur. Framlag mitt skiptir máli en ekki kannski ég sem persóna. Það hafa þó komið tímar þar sem ég verð frústreraður og spyr, en ég? Maður er bara lítill strákur frá Grindavík sko ...“
Hið heilaga GRAL og helvítis leikarinn
Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, prestur í Grindavík, fékk Berg til þess að setja upp sýninguna 21 manns saknað með unga fólkinu í bæjarfélaginu. Það varð kveikjan að Grindvíska atvinnuleikhúsinu sem stofnað var árið 2007 af Bergi og Víði Guðmundssyni, einu atvinnuleikurunum sem Grindavík hefur alið. Bergur viðurkennir að stundum hafi verið erfitt að koma heim til Grindavíkur berjast fyrir blómlegu menningarlífi.
„Þegar ég kem í heimsókn til Grindavíkur þá spyr fólk: „Er þetta ekki helvítis leikarinn?“ Það fylgir því helvítis. Fólk segir þetta við mig en meinar kannski ekkert illt. Þetta er samt ákveðinn þröskuldur og maður getur orðið viðkvæmur fyrir því. Þessi gamli verstöðvarvinnukúltúr, hann varð þess valdandi að mér fannst ég þurfa að pukrast með þetta.“
Heilmörg verk liggja eftir Berg sem hefur verið duglegur að búa sér til verkefni. Hann hefur unnið til fimm Grímuverðlauna á sínum ferli og leikstýrt stórum verkum á borð við Billy Elliott, Galdrakarlinn í OZ og Mary Poppins. Litlu, sjálfstæðu verkin eiga þó sérstakan sess í hans hjarta þar sem hann og GRAL koma að öllu sköpunarferlinu. Sýningar eins og Jesú litli, Horn á höfði og 21 manns saknað sem dæmi. Bergur er mikill liðsmaður en oft er hann í aukahlutverkum og leikstjórar í leikhúsum eru ekki eins nafntogaðir eins og kollegar þeirra í kvikmyndum. Er hann sáttur við það hlutskipti? „Auðvitað vill maður njóta sammælis og fá kredit fyrir sín verk, maður er bara mannlegur. Framlag mitt skiptir máli en ekki kannski ég sem persóna. Það hafa þó komið tímar þar sem ég verð frústreraður og spyr: „En ég?“ Maður er bara lítill strákur frá Grindavík sko.“
„Það virtist vera einhver leyndarhyggja bara yfir þessu máli. Þetta varð á endanum til þess að ríkisstjórnin sprakk, þetta hafði engum dottið í hug að það ætti eftir að gerast vegna kynferðismála ...“
Stanslaus straumur á taugakerfinu
Í viðtalinu kemur Bergur inn á hið hræðilega ár 2017 en þá gekk hann og fjölskylda hans í gegnum dimman öldudal. Þá verður til það sem er þekktast undir myllumerkinu höfum hátt. „Nokkrum árum áður hafði þekktur lögfræðingur níðst á dóttur minni sem þá var fjórtán ára, platað hana í kynferðislegum tilgangi á margan og ógeðslegan hátt. Hann fékk dóm og hluti af þeim dómi var að hann missti lögmannsréttindi sín. Síðan gerist það sumarið 2017 að hann hlýtur uppreist æru, sem þýðir að hann má aftur sinna lögmannsstörfum. Við vorum ekki sátt við þetta og fékk mjög á okkur. Við sem fjölskylda ræðum þetta og dóttir mín segir að hún muni ekki þaga yfir þessu. Í framhaldinu setur hún færslu á Facebook sem fjölmiðlar taka eftir og fara að hafa samband. Ég tek svo að mér að henda mér fyrir þessa lest, ég kæmi lifandi út úr því.“
Bergur fór í kjölfarið í viðtal á Rás 2 og óhætt að segja að þjóðfélagið hafi farið á hliðina.
„Svo kom í ljós að þetta fór svona á einhvern sjálfvirkan hátt. Hann sinnir störfum þar sem fólk er jafnvel á erfiðustu stöðum lífs síns. Það kemur í ljós að forsetinn skrifar upp á uppreist æru vegna tilmæla frá ráðuneyti sem endar á því að stjórnarskráin segir þeim að gera þetta. Við skiljum það ekki, af hverju? Við fórum því að rukka fólk um ábyrgð. Það virtist vera einhver leyndarhyggja bara yfir þessu máli. Þetta varð á endanum til þess að ríkisstjórnin sprakk, þetta hafði engum dottið í hug að það ætti eftir að gerast vegna kynferðismála.“
Viðtal: Dagný Maggýjar.