Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Bankahrunið eftirminnilegast
Fimmtudagur 1. janúar 2009 kl. 14:37

Bankahrunið eftirminnilegast

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Bövar Jónsson, bæjarfulltrúi og aðstoðarmaður fjármálaráðherra:


Eftirminnilegast á árinu 2008 er auðvitað sú mikla alþjóðlega efnahagslægð sem gekk yfir á árinu og leiddi að lokum til bankahrunsins hér á landi og þeirrar miklu kreppu sem við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir. Þessar gríðarlegu breytingar á efnahagsumhverfinu leiddu til mikillar vinnu, ekki hvað síst í ráðuneyti fjármála, sér í lagi á seinni hluta ársins. Þá tóku kjarasamningar talsverðan tíma á árinu.


Þrátt fyrir erfiðleika í efnahagslífinu er mér líka ofarlega í huga hversu vel hefur gengið hér á Suðurnesjum og í Reykjanesbæ. Íbúum fjölgaði hér mikið á þessu ári og góður undirbúningur nýrra verkefna í Helguvík sem unnið hefur verið að á undanförnum árum gefur nú miklar vonir um að takast megi að skapa fjölmörg ný og vel launuð störf á næstu mánuðum. Þannig megi draga úr því atvinnuleysi sem nú fer vaxandi.


Næsta ár verður að öllum líkindum erfitt en ég tel að með bjartsýni og þrautseigju eigi að vera unnt að vinna sig út úr þeim erfiðleikum. Ég er sannfærður um að bæði Suðurnesjamenn og aðrir Íslendingar láta ekki tímabundnar þrengingar í efnahagslífinu buga sig, heldur leita tækifæra og lausna sem skapa nýja möguleika, ný störf og aukin verðmæti.