Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Bandarískur háskólaprófessor með mikinn áhuga á Tyrkjaráninu
Adam Nichols og Hallur Magnússon, formaður Sögu- og minjafélags Grindavíkur og Hollvinasamtaka Reykjanesvita.
Jón Hilmarsson
Jón Hilmarsson skrifar
sunnudaginn 5. desember 2021 kl. 06:45

Bandarískur háskólaprófessor með mikinn áhuga á Tyrkjaráninu

Adam Nichols er prófessor við Maryland-háskóla í Bandaríkjunum. Hann var kennari við útibú Maryland-háskóla á Keflavíkurflugvelli í nokkur ár um og eftir 1990. Hann kenndi  m.a. íslenskar fornbókmenntir og sögu Íslands. Áfanginn um sögu Íslands var alltaf mjög vinsæll meðal nemenda hans. Þegar hann leitaði til ferðaskrifstofu um ferð á Njáluslóðir kynntist hann Karli Smára Hreinssyni, kennara, sem var leiðsögumaður þeirra í ferðinni. Adam hreifst af þekkingu hans á sögu Íslands svo mikið að hann fékk hann til að vera gestafyrirlesari öðru hverju í kennslu hjá honum.

„Þegar ég var að ljúka störfum hér á Íslandi stakk Karl Smári upp á því að við skyldum halda áfram samstarfi og kannski þýða bók saman yfir á ensku. Þetta var líklega um árið 1993 sagði Adam. Karl Smári hafði áhuga á efni frá 17. öld sem hann vildi vinna með og þýða yfir á ensku.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þeir ákváðu að þýða íslenskt bókmenntaverk yfir á ensku og fyrir valinu varð Reisubók séra Ólafs Egilssonar. Þeir félagar unnu síðan að þessu í nokkur ár. Karl Smári þýddi textann yfir á ensku og Adam vann síðan áfram með textann. 

Reisubók séra Ólafs Egilssonar

Séra Ólafur Egilsson var prestur í Vestmannaeyjum þegar Tyrkjaránið átti sér stað árið 1627. Honum var rænt ásamt 242 öðrum Vestmannaeyingum. Séra Ólafur fékk leyfi til að fara til Íslands og safna fé til að kaupa út fjölskyldu sína og aðra Íslendinga. Eftir heimkomuna og eftir hvatningu frá Skálholtsbiskupi skrifaði hann ferðabók um för sína frá Vestmannaeyjum til Afríku. Reisubók séra Ólafs Egilssonar er ein besta og ítarlegasta heimild sem við eigum um Tyrkjaránið á Íslandi, þegar alls um 400 manns var rænt og tugir manna voru drepnir. Enski titillinn er The Travels of Reverend Ólafur Egilsson. Bókin er einstök í heiminum, lýsing manns á eigin mannráni og síðan ferðinni til baka frá Afríku. Bókin hefur einnig verið þýdd yfir á hollensku og frönsku.

„Þegar kom að því að gefa bókina út varð útgáfufyrirtækið þeirra hér á Íslandi gjaldþrota í efnahagshruninu þannig að við keyptum upp lagerinn og seldum sjálfir bókina víðsvegar um heiminn.“

Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum og Grindavík

Þeir félagar Adam Nichols og Karl Smári hafa skrifað í sameiningu, í viðbót við við Reisubókina, tvær bækur á ensku um Tyrkjaránið á Íslandi. Fyrri bókin, Northern Captives, kom út árið 2020 og fjallar um Tyrkjaránið í Grindavík 1627 og síðari bókin, Stolen Lives, sem kom út fyrr á þessu ári og fjallar um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum 1627. Þessar bækur eru samtals um 500 blaðsíður og eru ítarlegasta efni sem gefið hefur verið út á ensku um Tyrkjaránið á Íslandi. Báðar þessar bækur eru skrifaðar fyrir almenning en byggja á traustum heimildum. Það sem er áhugavert við Tyrkjaránið er aðkoma Evrópubúa að því, foringjar ræningjanna komu frá Hollandi. Þeir höfðu þekkingu á því að sigla á úthafi sem Tyrkirnir höfðu ekki. Í tvö skipti komu hingað ræningjaskip í sitt hvora ránsferðina og á hvoru skipi voru hollenskir skipstjórar. Þessar ránsferðir voru fjármagnaðar af öðrum. „Þar sem þetta voru útlagar í Evrópu þá vantaði þá höfn til að geta siglt með fenginn sinn og komið honum í verð. Þar sem Afríka og Holland átti sameiginlegan óvin, Spán, þá hentaði Norður-Afríka þeim vel til að koma ránsfengnum sínum í verð. Líklegt er að það hafi verið danskur maður sem gaf þeim síðan upplýsingar um hvar best væri að ræna á Íslandi í skiptum fyrir frelsi,“ sagði Adam að heimildir segðu til um.

Útgáfa á íslensku og sýning í Grindavík

Núna er verið að undirbúa þýðingu og síðan útgáfu þessara tveggja bóka á íslensku, Northern Captives og Stolen Lives, annars vegar í Vestmannaeyjum og hins vegar í Grindavík. „Ég finn fyrir miklum áhuga Íslendinga á þessu efni í samræðum við fólk sem ég hitti hérlendis og almennt um sögu Íslands,“ segir Adam.

Í Grindavík er verið að undirbúa sýningu sem kemur til með að gera Tyrkjaráninu góð skil og m.a. verður gerð eftirlíking af skipi sem notað var í Tyrkjaráninu.

Adam segir að lokum að frá því að hann koma fyrst til Íslands árið 1987 þá hefur honum fundist hann vera heima þegar hann kemur hingað, honum líður alltaf vel hér og hefur farið víða um landið til að kynnast landi og þjóð.