BANDARÍKJAHER ÞJÁLFI ÍSLENSKA LÖGREGLUMENN SEGIR NÝR SÝSLUMAÐUR Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI Í VÍKURFRÉTTAVIÐTALI
Þann 1. apríl s.l. tók Jóhann R. Benediktsson við embætti sýslumanns á Keflavíkurflugvelli. Hann fæddist árið 1961 og ólst upp í vesturbænum í Kópavogi. Leið hans lá svo yfir lækinn og í Háskóla Íslands en þaðan lauk hann embættisprófi í lögfræði árið 1987. Hann er kvæntur Sigríði Guðrúnu Guðmundsdóttur, viðskiptafræðingi, og þau eiga þrjú börn á aldrinum 3ja, 6 og 7 ára. Eldskírn í utanríkisráðuneytinuJóhann starfaði um tíma hjá Húsasmiðjunni við innheimtu og samningagerð en hóf síðan störf hjá Utanríkisráðuneytinu. „Starfið í ráðuneytinu var mjög fjölbreytt og skemmtilegt”, segir Jóhann. „Á þessum tíma var m.a. unnið að gerð EES samningsins, sem ég tók þátt í ásamt fjölmörgum öðrum og var það mín eldskírn í erlendum samningaviðræðum. Starf mitt fólst aðallega í því að vera samræmingaraðili milli ráðuneyta og undirstofnana vegna þess hluta samningsins sem fjallaði um frjálsa för fólks og sjálfstætt starfandi aðila innan EES svæðisins. Ísland barðist fyrir að fá ákveðin öryggisákvæði inní samninginn og af þeim sökum gekk ýmislegt á í samningaviðræðum.”Starfaði í alþjólegu umhverfiAð þremur árum liðnum hélt Jóhann til Frakklands ásamt eiginkonu sinni. Á tímabilinu 1991-1993 starfaði hann í sendiráði Íslands í París og sem einnig sér um samskipti við OECD og UNESCO. Árið 1994 starfaði Jóhann aðallega hjá Evrópuráðinu í Strassborg. „Við fluttumst síðan til starfa við sendiráðið í Brussel árið 1994 en það sendiráð sinnir samskiptunum við Evrópusambandið. Þar bjuggum við í 4 ár. Við hjónin tókum síðan þá ákvörðun að flytja aftur heim. Ég fór að vinna á viðskiptaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins og helstu verkefni þar voru samningaviðræður EFTA-ríkjanna við Kanada um gerð fríverslunarsamnings. Ég vann þar í tæpt ár áður en ég tók við embætti sýslumanns”, segir Jóhann.Mörg verkefni bíða úrlausnaJóhann segir margt vera á döfinni hjá embættinu þessa stundina og hann hefði jafnvel kosið að á fá lengri tíma til að setja sig inní starfið. „Ég var m.a. skipaður í byggingarnefnd Flugstöðvarinnar og verkefni embættisins eru að vaxa vegna stækkunar Flugstöðvarinnar og hertra alþjóðlegra flugöryggisreglna. Schengen-samkomulagið mun einnig krefjast skipulagsbreytinga og fjölgunar starfsfólks”, segir Jóhann þegar hann er beðinn um að lýsa starfsumhverfi sínu.Vill auka samstarf tolls og lögregluJóhann hefur hug á að breyta ákveðnum áherslum varðandi stjórnun, samstarf deilda og stofnana og allt skipulag á störfum lögreglu- og tollembættisins í heild sinni. „Tveir starfshópar eru nú að skoða mál embættisins ofaní kjölinn, annar innan lögreglunnar og hinn innan tollsins. Þeirra hlutverk er að endurskilgreina störf, skoða vaktafyrirkomulag, símenntun, vinnureglur, aðbúnað, tækjabúnað o.fl.”, segir Jóhann. Hann segir að niðurstaða af vinnu þessara starfshópa muni liggja fyrir um næstu áramót. „Þá þurfum við að endurskipuleggja starfshætti okkar, en við erum reyndar byrjuð á því að mörgu leyti”, segir Jóhann og bætir því við að hann vilji leggja sérstaka áherslu á að auka samstarfs tolls og lögreglu, gera störfin fjölbreyttari og vinnuumhverfið jákvæðara.Þjálfun íslenskra lögreglumanna á vegum BandaríkjahersJóhann segir gagnkvæman vilja vera fyrir auknu samstarfi Varnarliðsins og lögreglunnar og verið sé að leggja drög að því. „Hugmyndin er að okkar menn fái markvissari þjálfun í að umgangast her og hermenn. Þetta er þjálfun sem Bandaríkjamenn bjóða þýskri og ítalskri lögreglu. Á sama hátt vil ég líka taka þá í læri og þjálfa í samskiptum við okkur. Ég vonast til að Utanríkisráðuneytið setji fljótlega á laggirnar vinnuhóp til að undirbúa þessi verkefni”, segir Jóhann.Sérhæfð störf á KeflavíkurflugvelliJóhann hefur ekki eingöngu áhuga á að efla samstarf við Varnarliðið, hann hefur líka fullan hug á að auka samvinnu við Lögregluskóla ríkisins. „Okkar störf eru að mörgu leyti frábrugðin störfum annarra lögreglu- og tollgæslumanna. Við viljum skerpa þessar áherslur og bæta alla þjálfun varðandi öryggismál, vopnaleit, sprengjuleit, landamæragæslu o.þ.h. og að þessi sérhæfing verði viðurkennd, þar sem þessi störf eru frábrugðin störfum annarra tollgæslu- og lögreglumanna.” Jóhann bætti við að nú standi til að skoða almannavarnaáætlun fyrir Keflavíkurflugvöll sem sé orðin úrelt, og mun sú vinna fara af stað eftir áramót.Fjármagnsskortur og mögulegar úrlausnirJóhann viðurkennir að enn sé vöntun á mannskap hjá embættinu. Hann segir mannfæðina þó vera anga af mun stærra vandamáli, m.a. vegna mikillar fjölgunar verkefna og fjárskorts. „Nú eru væntanlega að fara af stað nefndir sem munu skoða tekjumyndun á flugvellinum, þ.e. hvaða kostnað flugvöllurinn á í rauninni að bera. Ég bind miklar vonir við að Flugstöðin, í einni eða annarri mynd, komi meira inní rekstur embættisins í framtíðinni. En það er of fljótt að tjá sig um það hvernig þessi mál fara, eða hvaða fjármuni við munum fá til að spila úr.” Jóhann segir Schengen-samkomulagið, sem kemst sennilega í gagnið árið 2001, eiga eftir að spila stóra rullu í starfsmannamálum en aðalatriðið sé að bætt verði úr núverandi vanda varðandi undirmönnun áður en tekist verður á við ný verkefni. „Við verðum að vera komin með þann mannskap sem á að sinna þessum nýju verkefnum ekki seinna en um áramótin 2000-2001. Ég tel því að fjölgunarþörfin muni skýrast mjög fljótlega”, segir Jóhann en segist ekki geta nefnt neinar tölur enn sem komið er.Alþjóðlegt samstarf„Ég er búinn að vinna lengi í alþjóðlegu umhverfi og er því á heimvelli varðandi alþjóðleg samskipti. Sú reynsla er mér mjög dýrmæt. Vitaskuld mun ég reyna að tengja mitt embætti betur við aðra alþjóðlega flugvelli. Við erum t.d. að mynda vinnusamband við Kastrup-flugvöll og erum að senda menn í þjálfun þangað. Við munum fljótlega senda fíkniefnadeildina til Kanada og vegabréfa- og landamæragæslan fór nýverið til New York á námskeið. Svo eru menn að fara frá okkur núna til Kaupmannahafnar. Hér á sér stað mjög mikið uppbyggingarstarf vegna breyttra tíma og aukinna verkefna.”Mörg áhugamálEn hver er maðurinn á bakvið embættið? Þegar að er gáð kemur í ljós að Jóhann hefur áhuga á fjölmörgum hlutum. Hann segist sprikla reglulega í fótbolta með sínum gömlu félögum úr lögfræðinni og hann sé líka tiltölulega virkur í skákklúbbi.,,Ég hef verið að stíga mín fyrstu skref í veiði frá því við fluttum heim til Íslands og veiddi Maríulaxinn minn í fyrrasumar. Ég hef líka mjög gaman af því að ferðast og hef gert mikið af því í gegnum árin”, segir Jóhann. Hann játar þó að hann hafi ekki fylgst nógu vel með körfunni en fylgdist betur með framgangi Keflvíkinga og Grindvíkinga í boltanum í sumar. Að lokum segir Jóhann að markmið sitt í starfi sé fyrst og fremst að skapa jákvæðan og metnaðarfullan vinnustað, þar sem fólk vill vinna og finnst gott að vera.Texti og mynd: Silja Dögg Gunnarsdóttir