Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Ballöðusöngvarinn með barnshjartað sextugur
Föstudagur 20. ágúst 2004 kl. 17:48

Ballöðusöngvarinn með barnshjartað sextugur

Hinn ástsæli söngvari, Einar Júlíusson, er sextugur í dag. Hann heldur jafnframt upp á söngafmæli í dag. Þorsteinn Eggertsson skrifar um Einar á vef Poppminjasafns Íslands og er meðfylgjandi texti fenginn þaðan með góðfúslegu leyfi.

Þegar  rokkæðið skall á Íslandi var Einar Júlíusson þegar orðinn barnastjarna í Keflavík. Hann fæddist þar, yngstur systkina sinna, 20. ágúst 1944 og var farinn að syngja opinberlega áður en hann fór í barnaskóla. Svo skemmtilega vildi til að í sama bekk og hann var annar upprennandi tónlistarmaður; Þórir Baldursson.

Einar var glaðlegur krakki, ófeiminn, frumlegur og uppátektarsamur. Hann var farinn að syngja á almennum dansleikjum aðeins fimmtán ára gamall. Þegar hann var innan við fermingu flutti óperusöngkonan María Markan til Keflavíkur frá Bandaríkjunum. Hún heyrði drenginn einhverju sinni syngja hástöfum, þegar hann hélt að hann væri eingöngu að syngja fyrir sjálfan sig, og varð yfir sig hrifin. Hún bauðst til að kenna honum söng - ókeypis, því hún hafði tröllatrú á honum. En Einar færðist undan og afþakkaði gott boð, Maríu til sárra vonbrigða.

Einar söng með öllum helstu hljómsveitum Keflavíkur árin í kring um 1960 og var ráðinn fyrsti söngvari Hljóma þegar sú hljómsveit var stofnuð. En þótt honum fyndist gaman að syngja lög Pauls Anka og Fats Dominos, hafði hann aldrei verulega gaman af óheflaðri rokkmúsík. Hann fann sig því ekki alveg í grófustu Bítlalögunum og vék fyrir Karli Hermannssyni þegar Hljómar umbítluðust. Hins vegar hélt hann áfram að syngja og varð, stuttu síðar, einn af stofnendum hljómsveitarinnar Pónik en hún var geysivinsæl árum saman. Reyndar var það Einar sem stakk upp á Karli sem söngvara með Hljómum, en það var einmitt Karl sem samdi fyrsta lagið og textann sem Einar söng inn á plötu; Léttur í lundu.

Það hefur alltaf sópað töluvert af Einari. Hann hefur mikla útgeislun og nýtur þess að syngja vel samin lög. Í rauninni má segja að hann sé ballöðumeistari með ósvikið barnshjarta. Söngstíll hans og þessi útgeislun gerði hann að vinsælasta söngvara landsins árið 1965. Síðan hefur hvert afrekið komið á fætur öðru á söngvaraferli hans, hvort sem hann hefur sungið í litlum brúðkaupum eða á glæstum næturklúbbasýningum í Reykjavík.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024