Mannlíf

Bakstur í minningu Steinunnar ömmu
Mæðgurnar Guðbeig Sigurðardóttir og Lovísa Guðjóndóttir. VF-myndir/Marta.
Laugardagur 22. desember 2018 kl. 07:00

Bakstur í minningu Steinunnar ömmu

Mæðgurnar Guðveig Sigurðardóttir og Lovísa Guðjónsdóttir baka alltaf saman um hver jól

Mæðgurnar Guðveig Sigurðardóttir og Lovísa Guðjónsdóttir baka alltaf saman um hver jól. Einu sinni bakaði amma Steinunn líka með þeim, hún lést fyrir fjórum árum en amma Steinunn kenndi tengdadóttur sinni allt sem hún kann.

Guðveig, eða Veiga eins og hún er alltaf kölluð, flutti til Keflavíkur um tvítugt þegar hún varð kærasta Guðjóns Þórhallssonar. Hún segir að tengdamamma hennar, Steinunn Þórleifsdóttir, hafi tekið henni opnum örmum og kennt henni allt varðandi matargerð og bakstur … og bara allt sem tilheyrði heimilisstörfum. Steinunn var úrvals húsmóðir, af þeirri kynslóð sem bjó allt til frá grunni, tók slátur, bjó til kæfu, saumaði föt á fjölskylduna og hvaðeina. Þessar úrvals húsmæður af þeirri kynslóð eru að smátt og smátt að hverfa.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Amma var svo flink
„Á þessu heimili erum við að heiðra minningu Steinunnar tengdamömmu um hver jól þegar við bökum. Þegar ég flutti hingað til Keflavíkur um tvítugt með dóttur mína, hana Elísu Maríu, litla og varð kærasta Guðjóns þá tók tengdamamma okkur að sér. Hún kenndi mér allt frá A til Ö, hvort sem það voru tertur, smákökur eða matur. Við duttum báðar í lukkupottinn með Steinunni sem tengdamömmu og ömmu. Í dag baka ég það sama og hún gerði. Við Lovísa, yngri dóttir okkar Guðjóns, bökum alltaf saman. Í grunninn eru þetta uppskriftir frá tengdó,“ segir Veiga og Lovísa bætir við: „Ég hef alltaf haft áhuga á bakstri og man fyrst eftir mér sex ára að baka en ég lærði hjá ömmu Steinunni. Við bökuðum svo oft saman. Ég erfði allt bökunardótið frá ömmu og uppskriftabækurnar hennar. Við vorum svo miklar vinkonur. Þegar hún var orðin veik, undir það síðasta, þá fékk ég hana með mér í jólabaksturinn og ég á ennþá í frysti einn poka af síðustu smákökunum sem við amma bökuðum saman. Ég held svo fast í þetta. Þótt amma væri orðin veik þá varð ég að hafa mig alla við, átti ekki roð í hana, það lék allt í höndunum á henni. Amma kenndi mér síðustu jólin að búa til frómas. Ég reif hana alltaf með mér í baksturinn fyrir jólin því henni leið svo vel á eftir en amma var 81 árs þegar hún dó. Pabbi hefur sagt frá því að hann hafi stundum vaknað á morgnana og þá var hún búin að sauma ný föt um nóttina.“

„Já tengdamamma var fyrirmyndarhúsmóðir, ég dýrkaði hana og á henni svo margt að þakka. Hún var yndisleg manneskja,“ segir Veiga.


Amma Steinunn síðustu jólin sem hún lifði ásamt (f.v.) Lovísu, Þórhalli og Elísu.

Hvernig undirbýrðu jólin?
„Ég byrja yfirleitt fyrir 1. desember og baka fjórar sortir. Svo geri ég gömlu, góðu rjómaterturnar og er alltaf með gamla, góða, heimagerða vanilluísinn og frómas, allt uppskriftir frá Steinunni. Ég vil vera búin að öllu 10. desember. Ég skrifa persónulegt jólakort fyrir hvern og einn. Því miður hefur þeim fækkað rosalega sem mér finnst svakalegt. Ég sendi 72 áður en er komin niður í 30 jólakort núna. Mér þykir það mjög sorglegt því mér finnst svo gaman að fá og senda jólakort. Þessar yndislegu jólakveðjur. Ég geymi þau sem við fáum í eitt til tvö ár. Það hefur alltaf verið siður hjá okkur hjónum að lesa á jólakortin saman í kringum miðnætti á aðfangadag þegar allt er búið,“ segir Veiga sem finnst þessi jólasiður alltof notalegur til að fella niður.

Hvað með aðfangadag?
„Á aðfangadag er númer eitt hjá mér að hafa heitt súkkulaði með þeyttum rjóma handa gestum sem kíkja í heimsókn snemma dags. Flestir eru að koma með pakka og fá pakka hjá okkur en svo er gestum farið að fjölga síðustu ár sem koma til þess að eiga notalega stund með smákökum og heitu súkkulaði. Ég og Lovísa dekkum stofuborðið kvöldinu áður, á Þorláksmessu, rosalega flott. Fallegt skal það vera. Á aðfangadag fara Lovísa og pabbi hennar með öll jólakortin í Reykjanesbæ en hin eru send með pósti. Við förum alltaf með ljós í kirkjugarðinn á aðfangadag og kveikjum á fullt af kertum þar. Huggulegheit. Við hlustum á jólakveðjurnar á RÚV. Þessi dagur er heilagur. Maturinn hefst á mínútunni klukkan sex um kvöldið og þá er svínahamborgarhryggur og heimalagað rauðkál sem tengdó kenndi mér að gera. Svo bý ég til brúna sósu úr safanum af kjötinu og höfum brúnaðar kartöflur með. Mér finnst jólin fallegasti tími ársins. Það er bara þannig,“ segir Veiga dreymin og Lovísa er sammála mömmu sinni:

„Ég er algjört jólabarn. Jólin eru fallegur tími með fjölskyldu og vinum, bara gleði og hamingja.“ Aþena Ósk Stefánsdóttir, skábarnabarn Veigu, spyr hvort hún megi líka leggja til málanna en hún hefur setið í eldhúsinu á meðan á viðtalinu stóð og málað á piparkökur. „Mér finnst bara gaman á jólunum,“ segir hún og brosir. Vonandi finnst okkur flestum það einnig.



Súkkulaðibitajólakökur

1 bolli smjörlíki
1 bolli sykur
1 bolli púðursykur
3 bollar hveiti
1 bolli kókosmjöl
350 g súkkulaðispænir
1 tsk. salt
1 tsk. natron

Aðferð:
Setjið allt hráefni saman í hrærivélina og vinnið rólega saman. Hnoðið deigið og búið til fallegar kúlur og setjið á bökunarpappír. Bakið við 170° blástur í níu til ellefu mínútur.



Piparkökur Steinunnar

4 bollar hveiti
2 bollar sykur
2 tsk. negull
3 tsk. engifer duft
1 tsk. pipar
4 tsk. kanill
2 tsk. natron
250 g smjörlíki
½ bolli síróp

Aðferð:
Hráefni blandað vel saman í hrærivél, mjög gott að geyma í ísskáp yfir nótt. Taka út næsta dag og leyfa því að standa við stofuhita. Fletja deigið út og skera út með formum. Bakað á bökunarpappír við 170° blástur í níu til ellefu mínútur.

Brúnir kossar

500 g hveiti
250 g sykur
210g smjörlíki
1 tsk. hjartasalt
2 tsk. lyftiduft
4 msk. kakó
2 egg
½ dl mjólk

Aðferð:
Öll hráefni blandað vel saman í hrærivélarskál, vinnið rólega saman. Gerið fallegar kúlur og hægt er að setja t.d. M&M-nammi ofaná hverja. Bökunarpappír og bakið við 170° blástur í níu til ellefu mínútur.


Gulla marmari

350 g smörlíki
200 g flórsykur
1 stk. egg
450 g hveiti
1 tsk. vanilludropar
3 tsk. kókó í helminginn af deiginu

Aðferð:
Setjið allt hráefni saman í hræri­skálina og vinnið rólega saman. Takið helming af deiginu og blandið kókó saman við, hnoðið saman þar til deigið er orðið brúnt. Takið smávegis af hvoru deigi og hnoðið lítillega saman. Gerið kúlur og setjið á bökunarpappír og bakið við 180° í níu til ellefu mínútur.

Jólaís

6 eggjarauður
3 dl púðursykur
3 tsk. vanillusykur eða dropar
100 g súkkulaði/Toblerone
½ l rjómi



Aþena Ósk Stefánsdo´ttir skreytir piparkökur.