Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 27. mars 2002 kl. 14:11

Bagga sýnir á Ísafirði um páskana

Myndlistarkonan Sigurbjörg Gunnarsdóttir, betur þekkt undir nafninu Bagga, verður með myndlistarsýningu í Edinborgarhúsinu á Ísafirði um páskana, þar sem hún sýnir myndir sem eru unnar í akrýl á striga. Bagga er búsett í Keflavík þar sem hún er fædd og uppalin en hefur nokkur tengsl vestur því maðurinn hennar, Jón Ólafur Jónsson eða Óli Guggu, er frá Ísafirði þar sem leiðir þeirra lágu saman fyrir margt löngu þegar Bagga var námsmey í Húsmæðraskólanum Ósk.Bagga sagði í samtali við blaðið Bæjarins besta að aðdragandinn að þessari sýningu hefði ekki verið langur eða vel undirbúinn því satt best að segja hefði hún bara fengið hugmyndina á mánudaginn. „Við hjónin vorum búin að ákveða að fara vestur um páskana og allt í einu datt mér í hug að nota tækifærið og skella upp sýningu á Ísafirði í leiðinni enda er alltaf svo mikið um að vera á þessum tíma og margt fólk í bænum“, segir Bagga. Eftir að hún hafði haft samband vestur og fengið að vita að ekkert vandamál yrði með húsnæði undir sýninguna, ákvað hún að láta slag standa og verður sýningin opnuð í Edinborgarhúsinu á skírdag og stendur fram á annan dag páska. „Ég stefni líka á að fara á skíði, það er að segja ef ég get þá staðið á þeim enda er orðið ansi langt síðan ég hef stigið á skíði. En þau verða að minnsta kosti með í farangrinum“, segir Bagga og hlær.

Bagga stundaði nám í myndlistadeild Baðstofunnar í Keflavík frá 1991-1998, og hefur auk þess sótt ýmis önnur námskeið. Hún hélt sína fyrstu einkasýningu í Galleri Hringlist í Keflavík í maí á síðasta ári og var einnig með sýningu á Kaffi Mílanó Reykjavík síðastliðið sumar. Þá hefur hún tekið þátt í nokkrum samsýningum á undanförnum árum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024