Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Bæn hjartans - séra Elínborg Gísladóttir í viðtali
Laugardagur 26. desember 2009 kl. 13:43

Bæn hjartans - séra Elínborg Gísladóttir í viðtali


Hún er tignarleg innkoman í Grindavíkurbæ, fjöll sitthvoru megin virka eins og hlið frá náttúrunnar hendi áður en sést glitta í bæinn sjálfan. Tvær fallegar manngerðar steinhleðslur marka svo aðalinnkomuna í Grindavíkurbæ, bæ sem hefur alltaf haft ákveðna reisn yfir sér. Grindvíkingar virðast sjálfum sér nógir og halda uppi öflugu menningarlífi bæjarbúanna, eru með stórskemmtilega bæjarhátíð á sjómannadagshelgi, reka sitt eigið atvinnuleikhús, eiga sín kraftmiklu kvennafélög og atvinnuleysi er með því minnsta sem þekkist á landinu okkar eða um 3%. Grindavík byggir stoðir sínar enn á sjávarútvegi, þeir eiga kvóta og dugnaðar eiginkonur sjómanna hafa séð til þess að reka lífið á landi með öflugu menningarlífi á meðan eiginmenn hafa fært björg í bú. Íþróttafélögin í bænum eru landsþekkt og geysiöflug með rífandi stuðningi heimafólks. Það er sko kraftur þar sem aðdáendur Ungmennafélags Grindavíkur koma saman til að hvetja. Það hefur alltaf verið ákveðinn klassi yfir Grindavíkurbæ.


Kirkjan einstök

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindavíkurkirkja er risastór og glæsileg altaristaflan þar innandyra. Þegar komið er inn í heilagt húsið, þá er kirkjan eins og skip. Sagt er að sjómenn séu mjög trúaðir, þeir verði það ósjálfrátt þegar þeir geta ekki eingöngu treyst á mátt sinn og megin úti á rúmsjó í hvaða veðri sem er. Grindavík er fyrst og fremst bær útgerðarmanna og fjölskyldna þeirra og bæjarbúar vildu greinilega engu til spara þegar þeir byggðu svona stórt guðshús.

Í kirkjunni þjónar kvenprestur sem fer einstakar leiðir til að styrkja kristna trú innra með söfnuði sínum og það í eiginlegri merkingu þess orðs. Séra Elínborg Gísladóttir tók við prestakalli Grindavíkur fyrir þremur árum en hún kom frá Reykjavík, var þar prestur í Grafarvogi. Nú er hún flutt til Grindavíkur og líkar mjög vel.

„Mér líkar mjög vel hérna, þetta er ljómandi gott og íbúar einstaklega velviljaðir kirkjunni. Skólar eru duglegir að koma í heimsókn í kirkjuna sína, sérstaklega í kringum jól og hátíðir, líka til að heimsækja prestinn. Ég ákvað að setja á laggirnar aftur 10 til 12 ára starf og æskulýðsstarf sem KFUM og K sjá um. Ég vildi einnig bjóða upp á tólf spora andlegt ferðalag og þetta hefur allt gefist mjög vel en það er byggt á tólf spora kerfi AA samtakanna, markviss vinna til sjálfsstyrkingar. Ég þekki ekkert annað kerfi sem er eins öflugt til að læra að þekkja hver maður er. Hópurinn hittist eitt kvöld í viku allan veturinn en nú eru þrír hópar starfandi hérna. Kirkjurnar sem bjóða upp á þessa vinnu skipta því á milli sín að vera með batamessur einu sinni í mánuði sem hægt er að kynna sér á heimasíðunni www.viniribata.is. Í hádeginu á miðvikudögum er bænastund í kirkjunni klukkan 12, fyrirbænir og samvera sem endar í léttri máltíð með súpu í safnaðarheimilinu. Stúlknakór er starfandi hér ásamt kirkjukór fullorðinna. Hér er að mörgu leyti hefðbundið kirkjustarf en sálgæslan hefur aukist mikið“, segir séra Elínborg.

Hvíld í Guði

Frést hefur af sérstöku bænahaldi í kirkjunni hjá séra Elínborgu, þar sem hún kennir fólki forna bænaleið sem Jesús Kristur kenndi lærisveinum sínum og vildi að þeir bæðu einnig á þann hátt. Einhverra hluta vegna tapaðist þessi bænaaðferð niður í gegnum aldirnar. Munkur að nafni Thomas Keating kom hingað til lands árið 2000 til að leiða kyrrðardaga í Skálholti og kynnti þá fyrir séra Elínborgu og fleiri aðilum þessa fornu aðferð sem kallast á ensku Centering Prayer sem gæti kannski útlagst sem íhugunarbæn eða kristin íhugun. Séra Elínborg ljómar þegar talið berst að þessari aðferð og segir; „Þetta er mitt hugarfóstur, að kenna fólki þessa leið til bænaiðkunar. Þetta er mjög gömul bænaaðferð, sem má rekja allt til daga Krists en hann var alltaf að kenna lærisveinum sínum að biðja á þennan hátt. Jesús segir í Matt.6:6 En þegar þú biðst fyrir skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn sem er í leynum. Sem þýðir í raun að ganga inn í sitt eigið hjarta. Þetta er sérstök leið inn í hjarta okkar og þessi aðferð kennir okkur að fara inn á við, og um leið þá leyfum við heilögum anda að vinna í okkur. Það þýðir að við setjum okkur til hliðar og leyfum andanum að vinna. Þessa aðferð kenni ég hér í kirkjunni og er með hóp sem hittist alla miðvikudaga klukkan 17:30“.

Fór í klaustur

„Ég kynntist föður Thomas Keating ásamt fleirum og við fórum í klaustrið til hans í Colorado Bandaríkjunum í átta daga dvöl, þar sem við lærðum aðferðina vel. Þess er vænst að þú ástundir þessa íhugun hvern dag. Þessi bænaaðferð hefur ávallt verið ástunduð í klaustrum og byggist á kristilegum grunni en hefur djúp sálfræðileg áhrif. Markmiðið er að komast að guðlegum kjarna í sjálfum sér. Íhugunarbæn (Centering prayer) hefur verið talin einskær gjöf Guðs til okkar mannanna, hún er hvíld í Guði. Í henni opnast hugur okkar og hjarta, öll tilvera okkar fyrir Guði. Bæninni er ekki ætlað að koma í staðinn fyrir aðrar bænir heldur miklu frekar til að varpa á þær nýju ljósi og dýpka skilning okkar á þeim. Ég og Sigurbjörg Þorgrímsdóttir djáknaefni ætlum að leiða saman kyrrðardaga í Skálholti í janúar sem byggðir verða á kristinni íhugun með sérstaka áherslu á fyrirgefninguna og altarissakramentið. Það er verið að bjóða upp á þessa bænaiðkun í kirkjunum í Grafarholti, Mosfellsbæ og hér“, segir séra Elínborg.

Íhugunarbæn (Centering prayer) iðkuð reglulega hefur þau áhrif að fólk verður umburðarlyndara gagnvart umhverfinu, finnur innri frið, öðlast meiri sjálfsmeðvitund sem færir fólki meiri getu og gleði til að mæta hverjum degi. Fyrir þá sem þekkja tólf sporin þá er þessi aðferð ellefta spors vinna, þar sem við leituðumst við, með bæn og hugleiðslu að styrkja vitundarsamband okkar við Guð.

Séra Elínborg hefur boðið upp á kyrrðardag í Grindavíkurkirkju og þá er fólk saman í þögn, íhugun og hlustar á nærandi tónlist frá klukkan 10-16 með sameiginlegri máltíð og fræðslu. Fólk sem kemur annars ekkert endilega í messu mætir á kyrrðardag og kann vel að meta friðinn segir hún.

„Svo er ég með Lectio Divina þar sem við íhugum orð Biblíunnar en þetta er sérstök aðferð til að lesa Biblíuna, einnig mjög forn aðferð innan kirkjunnar til þess“, segir hún. Það hefur verið hennar hjartans mál að kenna fólki þessa bænaleið. Hún trúir því að þetta eigi eftir að aukast innan kirkjunnar, færa kirkjuna nær fólkinu því fólk þráir að finna heilunarmátt Guðs í lífi sínu. Með íhugunarbæn erum við að opna fyrir heilagan anda, við erum að hverfa frá samtali við Krist til samveru með honum.


Texti og myndir: Marta Eiríksdóttir //  fyrir blómstrandi mannlíf í Víkurfréttum.