Bækurnar um Línu Langsokk höfðu mikil áhrif
- Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður er lesandi vikunnar
Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar er Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Silja les mjög mikið vegna vinnunnar en tekur skemmtibókalestur í skorpum um jól og á sumrin.
Hvaða bók ertu að lesa núna?
Nú er ég að lesa bókina Nornin eftir Camillu Läckberg, sem er sænskur glæpasagnahöfundur. Hún klikkar aldrei. Svo er ég nýbúin að lesa bókina Kalak eftir Kim Leine, sem var frábær þannig að ég fór beinustu leið á bókasafnið að lestri loknum og fékk lánaða bókina Spámennirnir í Botnleysufirði (eftir Leine). Sú bók hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2013. Ég hlakka til að byrja á henni.
Hver er uppáhalds bókin?
Því er erfitt að svara þar sem svo margar bækur hafa haft djúpstæð áhrif á mig í gegnum tíðina. Verð að nefna bækurnar um Línu langsokk, Heiðu, Dagbók Önnu Frank, allar bækurnar um Emil og bókina Ég lifi eftir Martin Grey sem er örlagasaga gyðings sem komst lífs af úr útrýmingarbúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni. Maður grætur og hlær yfir bókum og þær færa manni sífellt nýja sýn á lífið og tilveruna.
Hver er uppáhalds höfundurinn?
Ég á marga uppáhaldshöfunda. Af þeim íslensku verð ég að nefna Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Forvitnilegur höfundur sem dregur mann inn í töfraheima. Ólafur Jóhann Ólafsson, Kristín Marja Baldursdóttir, Vilborg Davíðsdóttir og Kristín Steinsdóttir eru öll stórkostlegir rithöfundar. Les allt sem þau senda frá sér. Svo hef ég auðvitað gaman af góðum glæpasögum eins og til dæmis eftir Yrsu og Lilju Sigurðardóttur, Ragnar Jónasson og Arnald Indriðason. Isabel Allende hefur lengi verið ein af mínum uppáhalds erlendu höfundum og Astrid Lindgren.
Hvaða tegundir bóka lestu helst?
Skáldsögur, ævisögur og sögulegar skáldsögur.
Hvaða bók hefur haft mestu áhrifin á þig?
Lína langsokkur. Ekki síðri fyrirmynd en Vigdís Finnbogadóttir og Grýlurnar fyrir stelpur af minni kynslóð. Stelpur geta allt!
Hvaða bók ættu allir að lesa?
Saga þeirra, saga mín, eftir Helgu Guðrúnu Johnson og Kínverskir skuggar, eftir Oddnýju Sen, eru hvoru tveggja bækur um líf og örlög íslenskra kvenna á 19. og 20. öld. Afar vel skrifaðar og lærdómsríkar.
Hvar finnst þér best að lesa?
Í sumarbústaðnum á Snæfellsnesi á björtum sumarnóttum.
Hvaða bækur standa upp úr sem þú mælir með fyrir aðra lesendur?
Eyland, eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Áhugaverð pæling um „hvað ef“ og svo verð ég að nefna bækur Böðvars Guðmundssonar um Íslendingana sem fluttu vestur um haf, Hýbíli vindanna og Lífsins tré. Klassísk lesning. Að lokum verð ég að mæla með Ljóðasafni Steins Steinarrs. Hann mun ávallt eiga í mér taug.
Ef þú værir föst á eyðieyju og mættir velja eina bók til að hafa hjá þér, hvaða bók yrði fyrir valinu?
Hundrað ára einsemd eftir Gabriel García Márquez. Hún er svo seinlesin, myndi dugar mér til afþreyingar þar til mér yrði bjargað af eyðieyjunni.
Lesandi vikunnar er samstarfsverkefni Bókasafns Reykjanesbæjar og Víkurfrétta og verður nýr lesandi valinn í hverri viku í sumar. Þau sem vilja taka þátt eða mæla með lesanda geta skráð sig á heimasíðunni sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn eða í afgreiðslu Bókasafnsins að Tjarnargötu 12.