Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Bæjarstjórnin og Óli Geir fá það óþvegið
Sunnudagur 9. nóvember 2014 kl. 08:00

Bæjarstjórnin og Óli Geir fá það óþvegið

Leikfélag Keflavíkur sýnir Með ryk í auga

Leikfélag Keflavíkur frumsýndi sl. föstudagskvöld revíuna Með ryk í auga. Þetta er áttunda revían sem leikfélagið setur upp en um þessar mundir eru liðin 25 ár frá því fyrsta revía Leikfélags Keflavíkur var sett upp. Hún hét „Við kynntumst fyrst í Keflavík“ eftir Ómar heitinn Jóhannsson.

Með ryk í auga er í leikstjórn Hjálmars Hjálmarssonar en handritshöfundar eru Arnar Ingi Tryggvason, Jón Bjarni Ísaksson, Arnór Sölvason, Gustav Helgi Haraldsson, Ómar Ólafsson, Júlíus Freyr Guðmundsson og svo er stjórn Leikfélags Keflavíkur einnig skrifuð fyrir handritinu.
Revían er byggð upp á átján atriðum eða sketsum með gríni og tónlist þar sem þekkt lög eru flutt með nýjum og staðbundnum textum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leikarahópurinn sem tekur þátt í uppfærslunni er samsettur af fólki með talsverða sviðsreynslu hjá leikfélaginu og nýjum andlitum. Ekki er hægt að setja út á frammistöðu leikaranna sem allir skila sínum hlutverkum vel. Nokkrir leikarar fara þó algjörlega á kostum í uppfærslunni og það er mikill fjársjóður fyrir Leikfélag Keflavíkur að eiga svoleiðis fólk. Fyrstan ber að nefna Arnar Inga Tryggvason í hlutverki Árna Sigfússonar. Daði Freyr Þorgeirsson á mjög góða spretti í sýningunni m.a. sem Óli Geir, Guðmundur Rúnar Lúðvíksson listamaður og Sigurjón Vikarsson.
Halla Karen Guðjónsdóttir sem Anna Lóa Ólafsdóttir og Berglind Bjarnadóttir sem Bryndís Guðmundsdóttir eiginkona Árna Sigfússonar eiga báðar hrós skilið. Þá eru þeir Arnór Sindri Sölvason og Jón Bjarni Ísaksson mikill hvalreki fyrir leikfélagið. Arnór Sindri fer t.d. á kostum í hlutverki Konráðs Lúðvíkssonar læknis.

Í revíunni Með ryk í auga er gert mikið grín af pólitíkinni í Reykjanesbæ og fá bæjarfulltrúar það óþvegið. Einnig fær Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sinn skammt af gríninu, auk þess sem stungið er á ýmsum málum í bæjarfélaginu. Lögreglan, Óli Geir og Keflavík Music Festival, Sparisjóðsmál og fjölmargt fleira.

Í kosningaslagnum í Reykjanesbæ í vor varð einn bæjarbúi nokkuð áberandi í umræðunni. Styrmir Barkarson blandaðist inn í umræðuna. Hann leikur sjálfan sig í revíunni og bregður sér einnig í hlutverk bæjarfulltrúans Böðvars Jónssonar í sýningunni. Það er full ástæða til að hvetja íbúa Reykjanesbæjar til að skella sér í Frumleikhúsið á revíu eina kvöldstund. Uppfærsla Leikfélags Keflavíkur er alveg þess virði.

Hilmar Bragi Bárðarson