Bæjarstjórinn skellti sér í aparóluna
Fjölskyldudagur haldinn í fyrsta sinn í Sandgerði í gær.
Fjölskyldudagur Sandgerðisbæjar var haldinn í fyrsta sinn í gær og heppnaðist að sögn aðstandenda mjög vel. Dagurinn var hugsaður fyrir fjölskyldur til að leika sér og hafa gaman saman. Það var ekki annað að sjá en að það hafi tekist og gleðilegt að sjá hversu margir tóku þátt þrátt fyrir afar hressandi rigningu.
Aparólan var vígð og vakti mikla lukku enda var hún ósk frá börnunum sjálfum. Eftir að bæjarstjórinn, Sigrún Árnadóttir, hafði rennt sér fyrstu salibununa þá kom ekki á óvart að börnin voru óstöðvandi í rólufjörinu. Einnig var boðið var upp á púttþraut, knattspyrnuþraut þar sem m.a. var mældur skothraði knattarins, körfuknattleiksþraut, hlaup í skarðið og síðast en ekki síst fjölskyldumót í KUBB þar sem liðið B11 bar sigur úr bítum.
Að fjörinu loknu gæddu börn og fullorðnir sér á nýgrilluðum pylsum. Dagskráin raskaðist örlítið vegna votviðris en það kom ekki að sök og allir virtust skemmta sér vel. Kærar þakkir til allra sem lögðu hönd á plóg við undirbúning og framkvæmd Fjölskyldudagsins og síðast en ekki síst til þeirra sem komu og tóku þátt.
Sigrún bæjarstjóri fær sér pylsu...
...og salibunu í aparólunni.
Beðið í röð við aparóluna.
Ungir kylfingar æfðu sveiflur og pútt í rigningunni.