Bæjarstjóri leikur sjálfan sig
Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ, Árni Sigfússon, mun hlaupa í skarðið fyrir einn leikara í revíu Leikfélags Keflavíkur, Bærinn breiðir úr sér, sem sýnd hefur verið við fádæma góðar undirtektir að undanförnu í Frumleikhúsinu í Reykjanesbæ.
Sá sem leikur hlutverk bæjarstjórans í sýningunni þurfti að bregða sér út fyrir landsteinana og því þótti mönnum í leikfélaginu það liggja beinast við að leita til bæjarstjórans um að leika sjálfan sig. Það stóð ekki á svari hjá bæjarstjóra sem lýsti sig strax reiðubúinn. Þess má geta að Árni hefur áður tekið að sér hlutverk í menningarverkefni á Suðurnesjum en þá lék hann lögreglustjórann í bíómynd Kristlaugar Sigurðardóttur Didda og dauði kötturinn en Kristlaug er m.a. þekkt fyrir Ávaxtakörfuna og fleiri góð verkefni.
Að sögn Guðnýjar Kristjánsdóttur hjá Leikfélagi Keflavíkur hafa æfingar gengið vel. "Hann er búinn að vera ótrúlega jákvæður og lipur við okkur bæjarstjórinn og okkur finnst þetta mjög skemmtilegt ævintýri. Hann er búinn að mæta á eina æfingu og hefur fengið handritið til yfirlestrar. Svo munum við æfa aftur á morgun og lokaæfing er á föstudaginn fyrir sýninguna þá um kvöldið.
Bæjarstjóri mun bæði leika, syngja og jafnvel taka nokkur danspor á sýningum föstudaginn 18. og laugardaginn 19. apríl n.k. og hefjast sýningar kl. 20:00.