Bæjarstjóri í Garði afhenti íbúa nr. 1.500 gjafir
Garður vex og dafnar og íbúum fjölgar ört. Þann 28. maí síðastliðinn fæddist Þórunni Sigríði Þorsteinsdóttur stúlka sem skráist sem íbúi nr. 1.500 í bænum.
Á Sólseturshátíðinni fögnuðu Garðbúar m.a. þessari fjölgun en þá færði Oddný Harðardóttir bæjarstjóri Garðs stúlkunni góðar gjafir fyrir hönd sveitarfélagsins.
Stúlkan fær gjaldfrjálst pláss á leikskólanum Gefnarborg í sex mánuði og ásamt bókagjöf.
Samkvæmt íbúskráningu bæjarins í gær 7. ágúst, eru Garðbúar 1.544 talsins og samkvæmt því hefur íbúum fjölgað um 95 frá áramótum eða um 6,5%.
Á myndinni eru ásamt Hildi Ósk Óskarsdóttur íbúa í Garði númer 1.500, bróðir hennar Atli Reynir Baldursson, faðir hennar Óskar Ölversson, Oddný Harðardóttir bæjarstjóri og móðirin Þórunn Sigríður Þorsteinsdóttir.