Bæjarstjóri fékk nýdanska fánann
– Nýdönsk í opinberri heimsókn í Reykjanesbæ
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, tók við eintaki af nýdanska fánanum þegar meðlimir hljómsveitarinnar Nýdönsk komu í opinbera heimsókn til Reykjanesbæjar í vikunni. Nú standa einmitt yfir svokallaðir „Nýdanskir dagar“ hjá hljómsveitinni sem gerir víðreist í febrúar- og marsmánuði.
Hljómsveitin heldur tónleika í fimm sveitarfélögum á næstu dögum og vikum og í tengslum við tónleikana er farið í samstarf við tónlistarskóla á hverjum stað sem kynna sér tónlist hljómsveitarinnar og koma fram á tónleikunum.
Nýdönsk verður með tónleika í Hljómahöll þann 5. mars nk. Upphaflega áttu tónleikarnir að vera í Bergi í Hljómahöll en verða færðir yfir í Stapa í sama húsi vegna góðra undirtekta í miðasölu.
Á tónleikunum mun Nýdönsk leika sín þekktustu lög auk laga af Diskó Berlín. Hljómsveitina skipa: Björn Jr. Friðbjörnsson, Daníel Ágúst Haraldsson, Jón Ólafsson, Ólafur Hólm og Stefán Hjörleifsson. Þeim til aðstoðar er bassaleikarinn Ingi Skúlason.
Stefán Hjörleifsson og Jón Ólafsson úr Nýdönsk með Kjartan Má bæjarstjóra á milli sín með hinn litfagra nýdanska fána. VF-mynd: Hilmar Bragi