Bæjarstjórar hittust í röngu sveitarfélagi!
Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, er þessa stundina í óvissuferð með starfsfólk bæjarskrifstofu Hafnarfjarðar um Suðurnes. Hópurinn hefur farið víða um svæðið í þessari óvissuferð sinni. Um tíma var talið að Lúðvík og hans fólk væri týnt í svarta þoku á Reykjanesi. Áður en hjálparsveitir voru kallaðar til birtist rútan með fólkinu við brúnna á milli heimsálfa, sem reist var í sumar. Þar tók nýr bæjarstjóri Grindavíkur, Ólafur Örn Ólafsson, á móti fólkinu. Ólafur var reyndar á gráu svæði, þar sem brúin tilheyrir Reykjanesbæ og því voru bæjarstjórarnir að hittast í röngu sveitarfélagi. Víkurfréttir lofuðu að hafa ekki hátt um það!Eftir að hafa gengið á milli heimsálfa afhenti grindvíski bæjarstjórinn þeim hafnfirska og hans fólki viðurkenningarskjöl því til staðfestingar. Þá var aftur haldið út í óvissuna og nú á Saltfisksetur Íslands í Grindavík. Áður en saltfiskurinn var skoðaður var léttleika á dósum dreift á fólkið, svona rétt til að tryggja það að allir væru áfram glaðir og kátir. Við höfum áreiðanlegar heimildir fyrir því að þessum léttleikadósum hafi verið dreift nokkuð oft í ferðinni því einhverjir spurðu að því við Brúnna á milli heimsálfa, hvar mætti pissa!
Myndin: Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík, tekur á móti Lúðvík Geirssyni, bæjarstjóra í Hafnarfirði, á landsvæði Reykjanesbæjar við Sandvík á Reykjanesi. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Myndin: Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík, tekur á móti Lúðvík Geirssyni, bæjarstjóra í Hafnarfirði, á landsvæði Reykjanesbæjar við Sandvík á Reykjanesi. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson