B-in þrjú: Bombur, breddur og bílar
Afþreying
Keflvíkingurinn Brynjar Guðlaugsson er ekki mikið fyrir það að glugga í bækur. Hann á myndarlegt safn af DVD tónleikadiskum þar sem fjölbreytnin ræður ríkjum. Þegar kemur að sjónvarpsþáttum og kvikmyndum þá vill Brynjar hafa smá hasar í spilunum.
Bókin
Verð að segja það að ég er rosalega latur við það að rýna í bækur. Ef ég man það rétt þá var Útkall alfa TF-SIF bókin sem ég las síðast fyrir rúmlega ári síðan. Útkall alfa TF-SIF fjallar um mörg mögnuð afrek áhöfn þyrlunnar TF-SIF m.a. björgun áhafnar Steindórs GK 101 er báturinn strandaði við Krísuvíkurberg. Þetta er fyrsta Útkalls bókin en hún kom út árið 1994. Þetta minnir mig á það að ég þarf að fara kíkja á afa og ná mér í fleirri Útkalls bækur, enda magnað að lesa þetta.
Tónlist
Ég er rosalega lítið fyrir það að kaupa geisladiska eða plötur. Það sem ég kaupi mest eru DVD tónleikadiskar og finnst mér að hljómsveitir mættu gera meira af því að gefa slíkt út. Ég hef haft það sem reglu síðustu árin er ég fer erlendis að sækja mér 2-3 tónleika. Tónleikasafnið er mjög fjölbreytt hjá mér. Það sem ég keypti síðast var, að mig minnir, Public Enemy Live from House of Blues, Nirvana Unplugged og svo tónleikar með Billy Joel og Elton John í Kína. En þegar ég fer í símann og skoða það sem ég hlusta mest á þá koma upp lög með Bee Gees, Bill Withers, Jón Jónsson, Justin, Kaleo, Marvin Gaye og The Weeknd. Upphálds lagið var Take Me To Church með Hoizer en fékk ógeð af því þegar ég var farinn að heyra það í útvarpinu á stöðinni sem amma hlustar á, hef ekki ennþá haft tíma til að henda í nýtt uppáhalds.
Sjónvarpsþátturinn
Ég og góður vinur minn Björn Geir, eða Party eins og ég kalla hann, erum með ákveðnar reglur þegar það kemur að bíómyndum og hún nær eiginlega yfir þættina líka. Ef B-in þrjú koma ekki fram þá er ekkert varið í þetta. Bombur, breddur og bílar og ekki gleyma cash, það verður að vera cash. En einu þættirnir sem hafa slegið í gegn hjá mér er Suits og Entourage, enda bæði meistaraverk. Svo nánast allt íslenskt, er mikill áðdáandi íslensks efnis. Hlakka rosalega til að sjá nýjustu þættina sem Garðar Örn vinur minn er að gera, Goðsagnir held ég að þeir eigi að heita. Annars hef ég gefið Homeland, Sons of Anarchy, Scandal, Breaking Bad og fleirri súpum séns, en ekkert hefur heillað mig.