Aumingja strákurinn að fá okkur allar sex í næturheimsókn
Silja Dögg, þingmaður, hefur ferðast mikið um Ísland í sumar og segir landið ægifagurt í öllu sínu veldi
„Sumarið var kærkomið eftir sérkennilegan og erfiðan vetur. Ég byrjaði að flakka aðeins um í maí. Fór í dagsferðir á Suðurlandinu og tók eina nótt á hótelinu á Kirkjubæjarklaustri. Það var yndislegt að fá að upplifa og njóta friðsældar og fegurðar náttúrunnar, þar sem afar fáir voru á ferli fyrripart sumars,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður úr Njarðvík.
Hvaða staðir á Íslandi hafa heillað þig?
„Ég hef alltaf verið mikið fyrir að ferðast um landið, elska útilegur og á veturna ferðast ég líka um vegna starfsins, oftast um Suðurlandið. Ég get ekki gert upp á milli staða á Íslandi. Landið allt er ægifagurt í öllu sínu veldi og náttúran er síbreytileg. Birtan og veðrið, litirnir og árstíðirnar. Allt þetta býr til stemmingu sem hrífur mig á ólíkan hátt.“
Hvað ætlar þú að gera um Verslunarmannahelgina?
„Ég er ekki með neitt plan fyrir Verslunarmannahelgina. Ætla að sjá til með veður og í hvernig stuði ég verð. Vinkona mín, sem býr í Noregi, er hér á ferðalagi með fjölskyldu sinni. Það gæti allt eins verið að ég myndi elta þau eitthvert. Það skiptir eiginlega ekki máli hvar maður er, góður félagsskapur er málið.“
Hver er eftirminnilegasta Verslunarmannahelgin þín?
Eftirminnilegasta Verslunarmannahelgin mín hlýtur eiginlega að vera þegar ég fór á mína fyrstu Þjóðahátíð með nokkrum vinkonum úr Njarðvík. Veðrið var hræðilegt. Endalaus rigning og brjálað rok. Við komumst ekki frá Eyjum vegna veðurs og höfðum í engin hús að vernda. Peningalausar og allt rennandi blautt. Það endaði með því að ein vinkonan bankaði uppá hjá einhverjum strák sem hún kannaðist lauslega við og við fengum að gista á stofugólfinu heima hjá honum. Aumingja strákurinn að fá okkur allar sex í heimsókn.“
Hvað finnst þér mikilvægt að hafa um Verslunarmannahelgina?
„Gott veður er bónus en góður félagsskapur nauðsynlegur“, segir Silja Dögg.