Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Aukning í starfi eldri borgara
Föstudagur 20. janúar 2006 kl. 10:56

Aukning í starfi eldri borgara

Áhersla á líkamsrækt í tómstundastarfi eldri borgara virðist hafa skilað sér á síðasta ári ef merkja má mikla aukningu í þátttöku þeirra í tómstundum er snúa að alls konar hreyfingu.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Tómstundastarfs eldri borgara 2005 sem er kynnt á heimasíðu Reykjanesbæjar.

Forstöðumaður Tómstundastarfs eldri borgara sem heyrir undir Menningar-, íþrótta- og tómstundasvið er Jóhanna Arngrímsdóttir.

Bryddað var upp á þeirri nýbreytni á árinu að halda sérstakan kynningarfund s.l. haust þar sem vetrarstarfið var kynnt fyrir eldri borgurum. Mjög gótt mæting var á fundinn en þar fengu eldri borgarar afhentar stundaskrár fyrir veturinn. Fengu  kynningu frá leiðbeinendum auk þess sem hægt var að skrá sig á fjölbreytt námskeið.

Af helstu viðburðum ársins má nefna hið árlega bocciamót sem Félag áhugafólks um íþróttir aldraðra stendur fyrir en þar sigruðu eldri borgarar frá Reykjanesbæ með glæsibrag.
Eldri borgarar kynntu sér handverkssýningar hjá öðrum félagsmiðstöðum en handverkssýning eldri borgara í Reykjanesbæ er haldin annað hvert ár.

Sá viðburður á árinu sem stendur uppúr er ferð um 40 eldri borgara til Kanaríeyja þann 18. nóvember sl. á íþróttamót og sýningu eldri borgara. Alls sýndu 1100 manns frá 22 Evrópulöndum leikfimi og dansa og kynntu sér mikilvægi hreyfingar. Þjálfari hópsins var Eygló Alexandersdóttir og hópstjóri Jóhanna Arngrímsdóttir.

Árleg aðventuhátíð eldri borgara var haldin í Stapa í samvinnu við Kvenfélag Keflavíkur og Sparisjóðinn í Keflavík en aðrir samstarfsaðilar Tómstundastarfs eldri borgara eru m.a. Félag eldri borgara og 88 Húsið.

Rekstur tómstundastarfsins gekk samkvæmt áætlun en heildarupphæð hans var 19.813.970.

Aukning í starfinu
Aðsóknartölur sýna aukningu í starfinu frá árinu 2004. Heildarmæting árið 2005 var samtals 9.146 skipti. Alls sóttu 392 eldri borgarar námskeið á vorönn og 506 á haustönn. Mætingar árið 2004 voru samtals 7.847 skipti.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024