Aukin þátttaka í leikjum og betri skólaandi
Vinaliðar í Grunnskóla Grindavíkur.
Svokallað vinaliðaverkefni hófst fyrir skömmu Í Grunnskólanum í Grindavík. Verkefnið gengur út á að hvetja nemendur til meiri þátttöku í leikjum og afþreyingu í frímínútum og skapa betri skólaanda.
Vinaliðaverkefnið er norskt að uppruna, það hefur á fáum árum náð mikilli útbreiðslu og er nú starfrækt í yfir 1000 skólum í Noregi. Aðal markmiðið með þessu verkefni er að bjóða öllum nemendum skólans fjölbreyttara úrval afþreyingar í frímínútum, þannig að nemendur skólans finni eitthvað við sitt hæfi. Markmiðið er að allir nemendur skólans hlakki til að mæta í skólann sinn, alla daga.
50 nemendur í 3.-6. bekk sem valdir voru með kosningu í bekknum og hafa farið á námskeið hjá Vinaliðum gegna hlutverki vinaliða í Grunnskóla Grindavíkur en hlutverk þeirra er að setja upp, taka þátt í og aðstoða við afþreyingu í frímínútum. Að sýna yngri nemendum sérstaka athygli sem og þeim sem eru einir í frímínútunum. Að láta vita af því ef vinaliðinn telur að nemendum í skólanum leiðist, séu einmana eða ef hann verður vitni að einelti og útilokun eða öðru sem getur valdið vanlíðan nemenda.
Skólalóðin og frímínúturnar eru samkvæmt eineltisrannsóknum einn helsti vettvangurinn fyrir einelti. Vinaliðaverkefnið er ekki eineltisáætlun heldur stuðningsverkefni við eineltisáætlun skólans og er hugmyndafræðin að þar sem boðið er upp á skipulagt starf, fái gerendur eineltis aðra hluti til að hugsa um. Aðgerðarleysi er nefnilega oft rótin að slæmum hlutum.
Mikilvægt er fyrir börn og unglinga að fá fjölbreytta hreyfingu og skemmtun og er það nauðsynlegur hluti af þroska þeirra, enda hafa rannsóknir sýnt að það sé samhengi milli hreyfingar og námsgetu. Við viljum því að framboð af hverskonar hreyfileikjum og annarri afþreyingu í frímínútunum sé fjölbreytt og skipulagt þannig að sem flestir finni eitthvað við sitt hæfi. Vinaliðaverkefnið er okkar leið til að mæta þessu, en í verkefninu eru settir upp leikir og afþreying af nemendum og á þeirra forsendum. Nemendur skólans hafa svo að sjálfsögðu val um hvort og þá hvaða leikjum þeir taka þátt í.