Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Aukin afköst og bættur starfsandi
Föstudagur 29. apríl 2011 kl. 16:31

Aukin afköst og bættur starfsandi


Gamli barnaskólinn er kominn með nýtt hlutverk og tengist aftur skólastarfi í bænum. Ástæðuna má rekja til þess að þegar starfsmenn fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar leituðu leiða til hagræðingar var þeirri hugmynd kastað fram að sameinast undir einu þaki í barnaskólanum. Hugmyndinni hafði reyndar verið kastað fram áður. Það var vitað að þröngt yrði um starfsmenn í gamla skólahúsinu en starfsmenn Reykjanesbæjar eru hins vegar orðnir vanir þrengslum og því var ákvörðun tekin um að fræðsluskrifstofan færi á Skólaveginn í gamla barnaskólahúsið. Það hafði staðið autt um tíma en þar var síðast Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Blaðamaður Víkurfrétta kíkti í gamla barnaskólann og hitti þar fyrir þá Eirík Hermannsson fræðslustjóra og Gylfa Jón Gylfason yfirsálfræðing.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þröngt mega sáttir sitja

Við gerð fjárhagsáætlunar á síðasta ári fóru menn að velta þessu fyrir sér fyrir alvöru enda hafði starfsemi fræðsluskrifstofunnar verið á þremur stöðum.

„Við ræddum þetta við starfsfólkið og það voru allir sammála um að það væri til þess vinnandi að vera öll undir sama þaki og spara fimm milljónir króna á ári fyrir bæjarsjóð án þess að skerða þjónustu. Við ákváðum því að setja undir okkur hausinn og þröngt mega sáttir sitja,“ segir Eiríkur Hermannsson, fræðslustjóri Reykjanesbæjar í samtali við Víkurfréttir.

Gylfi Jón segir þetta vera nýja hugsun í starfinu. Sálfræðiþjónustan gengur út á það að það þurfi að hafa viðtalsaðstöðu og svo frv. Grunnskólalögin segja að sérfræðiþjónustan eigi að fara fram eins og hægt er innan veggja skólans þannig að viðtalsherbergin eru einfaldlega í skólunum. Við höfum síðan verið með sálfræðilegar prófanir hér og talmeinaþjónustu að mestu leyti og kennsluráðgjafarnir hafa verið með sín próf hér líka. „Niðurstaðan er sú að við erum öll undir sama þaki og það skilar sér í auknum afköstum og bættum starfsanda,“ segir Gylfi Jón Gylfason yfirsálfræðingur Reykjanesbæjar.

„Við það að koma öll aftur undir sama þak verður frjórri fagleg umræða og hún verður þvert á sérfræðisviðið. Sálfræðingar, kennsluráðgjafar, sérkennsluráðgjafar og talmeinafræðingar setjast hér saman í kaffitímum og það verður meiri gróska í umræðunni sem var á gamla staðnum í Kjarna þegar við vorum þar öll undir sama þaki. Það kvikna hugmyndir í kaffitímanum sem er auðvelt að þróa áfram,“ segir Eiríkur. Í dag eru tólf starfsmenn Reykjanesbæjar í húsinu en sá þrettándi er í leyfi.



100 ára gamalt skólahús

„Svo er þetta örugglega líka húsið. Þetta er 100 ára gamalt skólahús. Það er skemmtilegt að taka á móti fólki hér. Það kemur bros í andlitið á því og það koma fram æskuminningar því svo margir íbúar Suðurnesja hafa stigið sín fyrstu skref í skóla hér,“ segir Gylfi. Hann og Eiríkur eru sammála að þeir finni fyrir góðum anda í húsinu og finnst skemmtilegt að húsið hafi fengið þetta hlutverk, að hýsa yfirstjórn fræðslusviðs Reykjanesbæjar og sérfræðiþjónustuna.

„Eitt af því sem var algjörlega nauðsynlegt til að við gætum lifað það af að búa svona þröngt, var að það þyrftu að vera nægilega mörg fundarherbergi. Það var ekki þegar við komum hingað þannig að við breyttum einu klósettinu í fundaraðstöðu. Eftir það hefur það alveg sérstaka merkingu hér þegar sagt er: Viltu koma með mér á klósettið?“ segir Gylfi Jón.

Gylfi Jón er með minnstu skrifstofuna í húsinu en þar var gamli dúkkukrókurinn áður í barnaskólanum, þar sem stúlkurnar komu saman og léku sér með dúkkur. Skrifstofa yfirsálfræðingsins er örugglega sú minnsta sem maður í hans stöðu hefur á norðurhveli jarðar og þó víðar væri leitað. Gylfi er samt sáttur, enda getur hann tekið á móti tveimur gestum á skrifstofu sinni og boðið þeim sæti. „Þetta er svona 2011-skrifstofa,“ segir Gylfi og hlær.


Erfiðari mál inn á borð skrifstofunnar

Verkefnum fræðsluskrifstofunnar hefur ekki fjölgað frá kreppu en hins vegar eru fleiri flókin mál í úrvinnslu. Gylfi Jón segir að starfsmenn barnaverndaryfirvalda hafi sömu reynslu. „Við erum að fá fleiri mjög erfið mál inn á borð til okkar,“ segir Gylfi Jón.

Við flutninginn í gamla barnaskólann var allt verklag hugsað upp á nýtt og endurskipulagt og þannig hafa afköst aukist. Nú sé staðan sú að skrifstofan getur farið inn í sumarið með það að hafa lokið öllum málum eða komið þeim í þann farveg að ástandið sé viðunandi. „Biðlistar eru að styttast með þessari hagræðingu sem við gerðum ef undan er skilið talmeinaþjónusta en þar er nokkur bið eftir þjónustu,“ segir Gylfi Jón.

Starfsmenn Reykjanesbæjar hafa tekið á sig skert starfshlutfall sem þýðir fyrir fræðsluskrifstofuna að þar er samtals búið að skera niður rúmlega eitt stöðugildi. Á sama tíma breytast lög og reglugerðir um sérfræðiþjónustu. Mannskap hefur verið fækkað á sama tíma og talað er um að nýja reglugerðin auki vinnuálag á sérfræðiþjónustu um 25 prósent. „Þetta hafa verið erfiðir tímar en við höfum komið standandi niður,“ segir Gylfi Jón. Í nýju reglugerðinni er aukin áhersla á eftirfylgni og mat á skólastarfi sem fræðsluskrifstofan vinnur nú við að koma í viðunandi horf.

Gott samstarf við félagsþjónustuna

Fræðsluskrifstofan á í góðu samstarfi við félagsþjónustuna í Reykjanesbæ um barnaverndartengd mál. Oft eru þetta sömu viðskiptavinir sem eru hjá félagsþjónustunni og í skólunum og reynt er að vinna þau mál í samvinnu þessara aðila. Nálgunin er reyndar ólík því lagaramminn sem unnið er eftir er ólíkur.

„Sérfræðiþjónustunni okkar er fyrst og fremst ætlað að veita ráðgjöf og stuðning vegna skólagöngu. Þar endar okkar lína. Aðkoman að heimilinu er hins vegar hjá fjölskyldu- og félagsþjónustunni. Ef að málið snýr meira að heimilinu eða fjölskyldunni, þá er það orðið þeirra bolti,“ segir Eiríkur og Gylfi Jón bætir við:

„Við eigum þó samkvæmt lögunum að veita almenna uppeldisráðgjöf og það höfum við m.a. gert í gegnum SOS-námskeiðin. Þar höfum við tekið 1500 íbúa á námskeið. Samstarfið við félagsþjónustuna er þannig að hver félagsráðgjafi er með sinn skóla og hver sálfræðingur með sinn skóla og við reynum að hafa samstarfið á persónulegu plani“.


Árangur í agamálum

Mikil vinna er í gangi með skólunum og kennsluráðgöfum vegna læsis og lesskilnings. Sálfræðingar og fleiri eru með námskeið fyrir starfsfólk skólanna. Árangur fer batnandi og t.d. hefur á undanförnum árum árangur Holtaskóla í lestri verið athyglisverðurog þar er mikið og gott samstarf við foreldra. Gylfi Jón segir að nemendum í Reykjanesbæ líði almennt vel og í skólunum sé verið að ná góðum árangri á ýmsum sviðum. Eiríkur segir að horft sé í niðurstöður samræmdra prófa og PISA kannana til að sjá hvar veikleikarnir og styrkleikarnir séu og hvernig bregðast megi við með skólunum. Nú er einnig mikil vinna í skólnum þar sem tekið er á agamálum og ná aga í ásættanlegt horf. Sú vinna gengur vel og hafa foreldrar haft á orði að þeir sjái umtalsverða breytingu til batnaðar. Um leið og árangur hefur náðs í agamálum eru tækifæri til að auka enn frekar námsárangur.

[email protected]