Aukið sorp í takt við þenslu á svæðinu
Gjaldtakan hefur reynst vel hjá Kölku segir Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri
Gjaldtaka á plönum hjá Kölku, Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf. var umdeild þegar hún var tekin upp árið 2012. Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri Kölku segir að fyrirtæki og utanaðkomandi aðilar hafi verið dugleg að henda rusli á plönum sorpeyðingarstöðvarinnar sem ætluð eru fyrir heimilin. Þau hafi því komist undan því að borga fyrir losun eins og þeim ber að gera. Vegna þess voru það íbúar sem voru að niðurgreiða kostnaðinn fyrir fyrirtækin með auknum sorpgjöldum. Þau gjöld hafa nú staðið óbreytt í fimm ár og gjaldtakan á plönunum hefur reynst mjög vel fyrir fyrirtækið, þrátt fyrir að ennþá megi finna búslóðir og gjaldfrjálsan úrgang á víðavangi sem umhverfissóðar skilja eftir sig.
Fólk er að henda meira rusli
Jón segist finna töluvert fyrir aukningu á svokölluðu framkvæmdarusli hjá Kölku. Það sjáist bæði á planinu þar sem einstaklingar losa sinn úrgang og frá gámafyrirtækjum sem sjá um sorp fyrir fyrirtækin á svæðinu. „Þeir segja það strákarnir sem hafa verið hérna lengst að þetta sé að verða svipað því sem var hérna 2006 og 2007. Það segir okkur kannski að það sé töluvert af framkvæmdum í gangi.“ Jón segir að eins sé aukið sorp frá hótelum og gistiaðilum á svæðinu í takt við aukinn straum ferðamanna. „Við finnum fyrir fjölgun íbúa og að það sé verið að taka sífellt fleiri hús í notkun. Við finnum fyrir þessum vexti á svæðinu, fólk hendir meira rusli.“
Jón tók til starfa hjá Kölku árið 2011 en þá var staða fyrirtækisins mjög erfið. Fyrirtækið skuldaði 1.350 milljónir og eiginfjárstaða var neikvæð um 600 milljónir. Jón segir að einnig hafi verið mikið af óleystum verkefnum, bæði vegna viðhalds brennslustöðvarinnar og umhverfismála sem þurfti að leysa. Stærsta umhverfismálið var að finna lausn vegna flugöskunnar svokölluðu, sem er efnið sem verður til í reykhreinsikerfinu við brennslu, en það hafði safnast upp alveg frá því að stöðin var stofnuð árið 2004. Um er að ræða spilliefni sem ekki má urða á Íslandi og því þurfti að kosta til um 150 milljónum til þess að flytja efnið, tæp 5000 tonn erlendis til urðunar. Jón sagði að reksturinn væri nú í mun betra jafnvægi og stjórn og starfsmenn hafi staðið vel saman um að bæta ástandið. Eiginfjárstaðan er orðin jákvæð, skuldir hafa lækkað verulega, viðhald stöðvarinnar í góðu standi og tekið hefur verið á umhverfismálunum.
Jón segir að eitt stærsta vandamálið sem þurfti að takast á við var það mikla magn sem kom inn í stöðina í gegnum plönin. „Ég fór að fylgjast með því hverjir væru að henda þessu rusli og komst að því að þetta voru í mörgum tilfellum fyrirtæki og aðilar af höfuðborgarsvæðinu. Þau komu bara hér inn á plönin sem fyrst og fremst eru ætluð fyrir heimilin.“ Jón segir að fundað hafi verið með það í hyggju að taka á þessum málum. „Ég fór sjálfur hérna á planið og ræddi við menn sem komu með mikið magn af rusli, kannski vörubretti og veiðarfæri, sem þeir sögðu vera frá fjölskyldumeðlimum. Það er kannski ljótt að segja það, en ýmsir bliknuðu ekki þó að þeir væru augljóslega að segja manni ósatt. Fólk vissi það að ef það þyrfti að fara á vigtina þá þyrfti að borga. Við þurftum að finna leið til þess að taka á þessu og sáum fljótt að eina leiðin var að taka upp gjaldtöku.“
Þannig mátti stýra því að fyrirtækin þyrftu að borga fyrir losun á miklu magni af úrgangi hvort sem þau komu á plönin eða vigtina. Jón segir að ýmsir hafi haft efasemdir um að reyna þessa leið, en samstaða náðist um málið. „Þarna vorum við að missa mörg hundruð tonn á ári inn á plönin, sem við vorum ekki að fá neitt borgað fyrir en vorum að bera verulegan kostnað af. Allur þessi kostnaður hafði stöðugt lent á íbúunum. Áður fyrr þegar gjöldin voru hækkuð þá voru þau mest hækkuð til íbúa en minnst á fyrirtækin. Íbúarnir voru þannig að niðurgreiða kostnaðinn fyrir fyrirtækin.“
Sorpgjöld á heimili standa í stað
Gjaldtakan hefur verið á frá byrjun árs 2012. „Við vissum alveg að þetta yrði umdeilt og við vorum undir það búin. Við gerðum ráð fyrir því að fólk myndi henda drasli út í móa. Málið var hins vegar að fólk hafði alltaf gert það, það var ekki nýtt fyrirbæri þó margir virtust vera búnir að gleyma því.“ Strax árið sem gjaldtakan hófst fór að bera á mjög aukinni umferð inn á vigtina. Magnið sem fór inn á plönin í kjölfarið dróst saman um tæp þúsund tonn á fyrsta árinu. Jón segist hafa fundið fyrir mikilli breytingu og auk þess fóru að koma inn auknar tekjur í kassann. „Í kjölfarið settum við okkur það markmið að hækka ekki sorpgjöld á heimilin og sjá hvað við gætum þraukað lengi. Þess í stað hækkuðum við gjöld á fyrirtækin sem höfðu áður fengið minni hækkanir en íbúarnir. Auðvitað voru ekkert allir glaðir en þetta gerðist frekar hávaðalaust og menn skildu að við þurftum að geta rekið þessa stöð.“ Sorpgjöldin hér á Suðurnesjum voru þau fimmtu hæstu á landinu árið 2012. Nú árið 2016 eru gjöldin á heimilin óbreytt fimmta árið í röð og eru þau 16. hæstu á landinu. Jón segir að talsvert hafi verið kvartað yfir því að gjaldtökumál hafi ekki verið kynnt nægilega vel. Ár hvert hafa verið send fréttabréf inn á öll heimili á Suðurnesjum þar sem málin eru kynnt ítarlega, auk þess að finna má upplýsingar á heimasíðu Kölku. Jón telur að annað hljóð sé komið í fólk í dag og að áður hafi talsvert meiri dómharka viðgengist.
„Reynslan hefur sýnt okkur að þetta er góð aðferð til að halda hlutunum í röð og reglu. Heilt á litið þá hefur þetta gengið ótrúlega vel. Gjaldtakan var mjög stór liður í því að koma hlutunum hér í betra horf, í raun miklu stærri liður en fólk gerði sér grein fyrir,“ segir Jón.
Það örlar ennþá á því að fólk geri sér ferð á ýmis svæði á Suðurnesjum til þess að losa sig við rusl. Þegar umræðan er tekin þá er gjaldtakan sjaldnar nefnd til sögunnar sem ástæða. Það kostar jú að henda sorpi. Ef sorp er svo skilið eftir á víðavangi þá þarf viðkomandi sveitafélag að standa kostnað af því að hreinsa það upp.
Kíkjum aðeins á hvaða sorp þarf að greiða fyrir að henda. Byrjum á því sem er frítt.
Raftæki - allar tegundir: T.d. ísskápar, þvottavélar, örbylgjuofnar eða sjónvarpstæki.
Málmar - allar tegundir: T.d reiðhjól og bárujárn.
Hjólbarðar
Spilliefni
Rafgeymar og rafhlöður
Blöð, tímarit og allur bylgjupappi
Það sem þarf að greiða fyrir:
Timbur allar tegundir: Húsgögn, gólfefni, innréttingar og vörubretti.
Grófur og blandaður úrgangur vegna framkvæmda: Gler, steinefni og múrbrot t.d.
Blandaður úrgangur vegna bifreiðaviðgerða og húsdýrahalds