Aukið sjálfstraust og námsgleði
Stökkbreytingar verða á viðhorfi nemenda til náms hjá MSS.
Fjölmargir nemendur hafa nýtt sér Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og skellt sér í nám. Mikil fjölbreytni er þar í boði og allt reynt til að mæta þörfum hvers og eins nemanda. Hé fyrir neðan má lesa umsagnir tveggja ánægðra nemenda:
Dreifnám hentaði vel
Elvu Björk Guðmundsdóttur hafði lengi langað til þess að fara í nám. Þegar henni var sagt upp sem stuðningsfulltrúa ákvað hún að nýta sér tækifærið og skráði sig í Menntastoðir hjá MSS. „Ég valdi dreifinám sem hentaði mér mjög vel og þessi byrjun á námi eftir langt hlé er mjög góð. Menntastoðirnar komu mér algjörlega af stað í áframhaldandi nám. Það að byrja aftur í námi eftir langan tíma getur verið strembið en með skipulagi og jákvæðni geta það allir. Eftir Menntastoðirnar ákvað ég að halda áfram og fór í Háskólabrú Keilis sem ég var að klára núna í maí. Í haust er stefnan tekin á Háskóla Íslands og ætla ég að fara í Þroskaþjálfafræði. Ég mæli með Menntastoðum fyrir alla sem eru að hugsa um að fara í nám eftir langt frí,“ segir Elva Björk.
Fyrirkomulag til fyrirmyndar
Það sem dreif Sigrúnu Eir Einarsdóttur fyrst og fremst í grafíska hönnunarsmiðju var áhugi hennar á grafískri hönnun. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á alls kyns tölvuvinnu og myndvinnslu. Fyrirkomulagið var til fyrirmyndar og fékk ég allt það sem ég vildi fá út úr námskeiðinu. Aldursbilið var frekar breitt og var ég mun yngri en flestir nemendur en hafði samt mjög gaman af. Kennarinn var frábær og fannst mér það hafa mikið að segja og það vakti enn meiri áhuga,“ segir Sigrún Eir.
Þegar henni stóð til boða að hefja nám í Menntastoðum var hún ekki lengi að hugsa sig um. Þar sem hún hefur ekki lokið stúdentsprófi fannst henni þetta tilvalið næsta skref til að koma sér aftur í nám. „Fyrirkomulagið hentaði mér mjög vel þar sem um dreifnám er að ræða. Ég hafði ekki fundið mig í framhaldsskólum þar sem prófkvíði og stress háði mér verulega. Eftir að ég byrjaði í Menntastoðum hefur sjálfstraust mitt aukist til muna og áhugi minn á áframhaldandi námi sömuleiðis. Hópurinn sem ég var í hefur náð mjög vel saman þrátt fyrir mjög ólíkan bakgrunn og aldur. Þessi hópur hefur orðið mér mikil hvatning til áframhaldandi náms,“ segir Sigrún Eir.
Eftir nám hennar hjá MSS er Sigrún Eir staðráðin í því að halda áfram að mennta sig. „Ég stefni ég á grafíska hönnun eða eitthvað því tengt. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið það tækifæri að koma mér af stað aftur eftir frí frá skóla með aukið sjálfstraust og gleði fyrir námi.“